146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:06]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ríkisstofnanir á Íslandi eru um það bil 200 talsins og hjá þeim starfa rúmlega 24 þús. manns. Allar ríkisstofnanir nota tölvur að einhverju marki. Mjög margar eru með sérhönnuð kerfi. Hver stofnun hefur í raun þróað sitt verklag og innri kerfi sín án nokkurrar samstillingar. Afraksturinn hefur verið misjafn. Meðan sum kerfi eru gríðarlega vel gerð eru önnur byggð á afar varasömum grunni. Það liggur ekkert heildstætt mat fyrir á því hvaða kerfi eru til, hverjir reka þessi kerfi, hvað reksturinn kostar og þar fram eftir götunum.

Þannig var það varðandi bókhaldskerfi fram til ársins 2003. Bókhaldskerfi ríkisins var í raun bylting þegar það tók við af mörgum mismunandi bókhaldskerfum á víð og dreif um stjórnkerfið. Samþættingin skilaði mjög góðum árangri en verkefnið var engu að síður gagnrýnisvert fyrir margar sakir. Þróun kerfisins fór mörg ár fram úr tímaáætlun og samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 reyndist stofnkostnaður kerfisins um 41% hærri en gert var ráð fyrir. Samtals hefur ríkið greitt um það bil 5 milljarða króna fyrir bókhaldskerfið.

Samkvæmt skýrslu PricewaterhouseCoopers frá 2008 voru á þeim tíma fjölmargir alvarlegir öryggisgallar í kerfinu, m.a. vegna nafnlausra tilraunanotenda með víðtækar heimildir. Þó er þetta samt klárlega dæmi um vel heppnað hugbúnaðarverkefni á vegum ríkisins.

Samkvæmt rannsókn Þórðar Víkings Friðgeirssonar, lektors við Háskólann í Reykjavík, fara 70% opinberra verkefna fram úr kostnaðaráætlun. Helstu ástæðurnar eru að ákvarðanataka byggir ekki á ígrunduðum áhættugreiningum, fyrstu áætlanir eru oft óraunhæfar, seinkanir eru vanmetnar sem og ófyrirséður kostnaður, þarfagreining er ekki nægilega vönduð, pólitík ræður för við val á kerfi, rangir aðilar velja kerfin, það er lítill stuðningur við stjórnendur og notendur og skortur á kennslu, þjálfun og skjölun, og fleira mætti tína til. Svo er einnig þekkt að öryggismál eru víða í ólestri, villuprófunum er ábótavant og gæðastýring hugbúnaðarþróunar er ekki nægilega góð. Úr öllu þessu þarf að bæta.

Mig langar til að ræða nokkur atriði sem tengjast því hvernig við ættum að vera að gera hlutina. Fyrsta atriðið er frjáls hugbúnaður. Frjáls hugbúnaður er hugbúnaður sem öllum er frjálst að nota, skoða grunnkóðann að, læra af, deila með öðrum og bæta. Það ætti að vera skýlaus krafa að allur hugbúnaður sem er þróaður á kostnað ríkisins sé frjáls því það tryggir að ríkið hafi alltaf möguleika á að skipta um þjónustuaðila og að grunninnviðir samfélagsins séu rannsakanlegir, bæði í akademískum og menntunarlegum tilgangi. Þá þykir líka sýnt að frjáls hugbúnaður sé að öllu jöfnu öruggari en annar hugbúnaður. Þetta er borðleggjandi nálgun.

Undanfarin ár hefur krafan um opið aðgengi að gögnum líka farið vaxandi. Í því felst að upplýsingar sem ríkið hefur í fórum sínum séu aðgengilegar á opnum og stöðluðum sniðum sem eru bæði vél- og mannlæsileg. Í nýjum lögum um opinber fjármál segir, með leyfi forseta:

„Talnagrunnur fjárlaga og frumvarps til þeirra skal vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og þau gögn skulu vera aðgengileg öllum til eftirvinnslu á tölvutækan máta.“

Þrátt fyrir þetta bárust þessi gögn vegna fjárlagafrumvarps síðastliðið haust ekki fyrr en eftir að fjárlögin voru samþykkt vegna þess að gögnin voru ekki tilbúin. Nú er beinlínis ómögulegt að vinna með frumvarpið án þess að gögnin séu til í tölvu. Vandinn var líklega í reynd sá að þar sem unnið er að jafnaði með lokuð skráarsnið í ófrjálsu umhverfi er ekki auðvelt að nálgast og vinna með hráu gögnin. Krafan um opin gögn snýst ekki síst um það að vinnuumhverfi stjórnvalda byggi á opnum sniðum þannig að sjálfgefið sé að gögnin séu opin án sérstakrar eftirvinnslu. Nauðsynlegt er að öll gögn á vegum ríkisins séu aðgengileg nema af ákveðnum persónuverndar- og þjóðaröryggisástæðum og kannski að eftirlit eftirlitsstofnana gildi um þau og að notkun þeirra sé ekki háð sérstökum leyfum.

Stofnanir ríkisins veita töluverða þjónustu við almenning. Mikið af þeirri þjónustu fer fram í gegnum form á vefsíðum þar sem fólk þarf að slá inn upplýsingar. Samþætting þessara þjónustugátta yrði alger bylting fyrir almenning. Það hefur unnist aðeins með island.is en meira þarf til svo hægt sé að sækja alla þjónustu á einn stað, hvort sem er að skrá sig í skóla, skila skattskýrslu eða hvað það er. Auðveldasta leiðin í átt að svona samþættingu er að byggja við núverandi kerfi opið forritunarviðmót sem leyfir forritunum öllum að tala saman. Þá væri hægt að skella nýju viðmóti ofan á. Það hafa orðið til ótal óvænt, áhugaverð og verðmæt forrit fyrir tilstilli opinna forritunarviðmóta og opinna gagna. Við ættum að sjálfsögðu að nýta okkur þann (Forseti hringir.) nýsköpunarvinkil.

Það er margt fleira sem mætti ræða um í þessu samhengi og ég vona að við getum átt góðar samræður um það.