146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Þekking er vald, það vitum við í dag og höfum vitað öldum saman. Hér í eina tíð notfærðu menn sér einkaleyfi á þekkingunni til að halda öðrum í myrkrinu. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það, það er ástæðulaust að vera með sögukennslu á þessum stað í þetta skiptið. Þekking og upplýsingar eru grundvöllur lýðræðisins hvar sem er í heiminum. Þekking gerir almenningi kleift að hafa eftirlit með valdhöfum á hverjum stað hverju sinni. Aðgengi að upplýsingum er eitt leiðarstef okkar Pírata. Nú barst mér erindi frá einstaklingi hér á landi þar sem hann rekur raunir sínar í samskiptum sínum við ráðherra samgöngumála. Þannig er mál með vexti að Ólöf heitin Nordal fól Vegagerðinni á sínum tíma að vinna skýrslu um lagningu þjóðvegar 1, þ.e. hvort eðlilegt væri að hann lægi um Breiðdalsheiði frá Dúpavogi til Egilsstaða eða um firðina. Þessi skýrsla skilaði sér til ráðuneytisins. Þarna er án efa um að ræða viðkvæmt plagg, enda skiptir þetta Austfirðingum í tvær fylkingar. Umræddur einstaklingur hefur beðið um að fá að sjá skýrsluna en verið synjað um það. Ég mun á grundvelli upplýsingalaga krefjast þess að fá skýrsluna, sækja um það formlega, og mun birta hana opinberlega, bara svo að það sé sagt.