146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:10]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Mikil aukning hefur orðið á ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum, eða um 20% aukning á síðustu fimm árum samkvæmt nýlegri samantekt landlæknis. Þessi lyf geta verið lífsnauðsynlegur hluti af bata fyrir marga en þessi mikla aukning vekur athygli í ljósi þess að Íslendingar áttu fyrir heimsmet í notkun þunglyndislyfja. Þessi umtalaða sérstaða okkar er því að aukast frekar en hitt.

Þá er sérstakt áhyggjuefni að aukningin er hlutfallslega langmest hjá þeim yngstu. Á fjórum árum hefur neysla ungmenna 15–19 ára á þunglyndislyfjum aukist um 60%, á aðeins fjórum árum. Þetta er gríðarleg aukning. Hana má örugglega rekja að hluta til þess sem hefur verið rakið af öðrum hv. þingmönnum, hversu dýrt það er að sækja sér sálfræðiþjónustu hér á landi, en hún er ekki niðurgreidd eins og önnur nauðsynleg meðferð við alvarlegum sjúkdómum. Það er þrátt fyrir að læknar séu sammála um að þunglyndislyf ein og sér leysa engan alvarlegan geðrænan vanda. Samtalsmeðferð verður að fylgja með lyfjagjöfinni til að von sé um árangur.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að í ljósi þeirra talna sé nauðsynlegt að auka aðgengi að sálfræðimeðferð enn frekar, umfram það sem gert er ráð fyrir í annars ágætri geðheilbrigðisáætlun. Um leið vil ég einnig hvetja sem flesta til að taka þátt í Pieta-göngunni sem var nefnd áðan og vænti þess að einhver breyting verði á í þessum málaflokki, því fyrr, þeim mun betra.