146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega orðin dálítið rugluð á afstöðu þingmannsins. Hvort vill hann að lögin séu heildstæð, tali saman, séu einn lagabálkur, eða ekki? Fyrra andsvar hans laut að því, að mér fannst, að hann vildi sjá heildstæða nálgun. Næsta svar var svo að þetta væri á einhvern hátt of keimlíkt, að maður gæti ekki greint þetta í sundur. Ég er orðin dálítið óviss um afstöðuna til málsins. En mér finnst gott að þessir tveir lagabálkar tali vel saman. Hér var það nefnt og lagt til að við önduðum í kviðinn og kæmum til baka eftir eitt til tvö ár með heildstæða löggjöf. Mín pólitíska afstaða er sú að við getum ekki beðið í eitt til tvö ár með að uppfæra landgræðslulögin, sem eru orðin yfir 50 ára gömul, og skógræktarlögin, út af því að tímarnir eru breyttir og það þarf að koma þessum lagabálkum inn í nútímann.