146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er það of mikið fyrir þingmanninn að lúslesa frumvörp sem koma frá ráðherrum? Er það of mikil krafa á þingmanninn? Nei, í sjálfu sér ekki. En í anda vandaðrar lagasetningar hefði ég haldið að það væri ekki of mikil krafa að ráðuneytið kæmi með óvitlaust mál inn til þings. Mér þykir ráðherrann nokkuð bjartsýnn að ætla að þessar tvær villur í þessum tveimur málum séu þær einu sem í þeim leynast. Ég hef ekki lúslesið málin og borið þau saman og gert það sem ráðuneytið hefði átt að gera áður en það kom með málin til okkar og þess vegna veit ég ekki hvort þær séu fleiri, en tvær eru þær.

Frú forseti. Ég tel að það sé ekki of mikil krafa að ráðuneyti ástundi minna fúsk, eins og flokkur hæstv. ráðherra talaði einu sinni fyrir, og skili hingað réttum frumvörpum en ekki röngum.