146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:54]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Er þetta ekki lýsandi dæmi um hversu litla virðingu þessi ríkisstjórn hefur fyrir þinginu og fyrir almenningi og vanvirðing fyrir lýðræðinu sjálfu? Getur verið sú ástæða fyrir því að hér er ekki haft neitt samráð og engar upplýsingar til þingsins um þessi áform að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar í ríkisstjórn viti að almenningur vill ekki frekari einkavæðingu í kerfunum okkar? Það er ekki stuðningur við það, en Sjálfstæðisflokkurinn telur sig vita betur hvað almenningi er fyrir bestu. Hann gerir ráð fyrir því að það verði uppþot í viku og svo gleymist þetta. Ég hvet almenning til að láta þetta ekki gleymast. Ég hvet almenning til að rísa upp því að ef við gleymum þessu eftir viku mun þetta koma fyrir aftur og aftur og aftur, af því að það er treyst á að ekkert verði gert.

Ég hvet almenning til að láta í sér heyra og koma skoðun sinni á framfæri um hvort þetta sé framtíð Íslands sem Íslendingar vilja sjá.