146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er reyndar ósammála þeirri skoðun hans að almenningur hafni virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Ég held að það sé almennur stuðningur við það að hér sé skattkerfið sem einfaldast, allar greinar séu í sama skattumhverfi og eðlilegt að sú grein sem stærst er sé í sama skattumhverfi og aðrar greinar. Það er í samræmi við réttlætiskennd flests fólks.

Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi hvort fyrirhuguð hækkun stuðli að dreifingu ferðamanna um landið. Svarið við því er nei, ég sé ekki að hún muni hafa áhrif til þess að dreifa ferðamönnum meira heldur en nú gerist.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um mótvægisaðgerðir. Hæstv. ferðamálaráðherra og ég höfum hist á fundum og ég hef þar að auki hitt forystumenn í ferðaþjónustu, bæði á landsvísu og svo hef ég hitt sérstaklega forystumenn í ferðaþjónustu á Austurlandi þar sem við höfum rætt mögulegar aðgerðir í markaðsmálum, kynningarmálum, uppbyggingarmálum á einstökum stöðum o.s.frv., sem ég tel óháðar þessari breytingu. Það er merkilegt að heyra hve margir telja að þessi hugsanlega breyting í framtíðinni hafi haft áhrif í þá veru að nú séu minni pantanir, sem ég á mjög erfitt með að skilja. En þar hafa verið lagðar fram tillögur sem hópur sem ferðamálaráðherra og ég munum skipa á næstu dögum fer yfir.