146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil nú segja það í upphafi máls míns að mér finnst mjög ómaklegt hvernig hv. þingmaður ræðst að ferðaþjónustunni og sakar hana um að ætla sér að fara að svíkja undan skatti vegna þess að hér verði fyrirkomulagi breytt. Ég held að í ferðaþjónustu sé almennt heiðarlegt fólk sem vill standa skil á þeim sköttum sem á greinina eru lagðar.

Þegar farið var í þessar aðgerðir voru gerðar ítarlegar greiningar. Ég vil benda hv. þingmanni á grein sem ég skrifaði í Kjarnann núna um helgina, langa og ítarlega grein, um virðisaukaskattsmálið. Hana má líka lesa á vef fjármálaráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram að ferðaþjónustan, sem stendur fyrir 8% af vergri landsframleiðslu, borgaði ekki nema um 3% af virðisaukaskatti fyrir árið í fyrra. Ég held að það sé mjög eðlilegt að hún borgi sinn skerf, þ.e. um 8%, og það mun gerast eftir breytinguna.