146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um lífeyrismál.

[14:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt að halda áfram með fjármála- og efnahagsráðherra. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hverju sæti að ekki er búið að ganga frá samkomulagi við sveitarfélögin um yfirtöku lífeyrisskuldbindinga eins og gengið var út frá og var grundvöllur samkomulags um nýtt fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna og tengt enn stærra máli sem snýst um jöfnun lífeyrisréttinda og lífeyrisréttindaávinnslu í landinu. Sveitarfélögin gengu til þessa samstarfs í góðri trú og vissulega lagði ríkið mikið af mörkum í fjármunum talið til að þetta gæti orðið að veruleika. Hluti þessa máls snerist um að ríkið tæki yfir lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila sem rekin eru á ábyrgð sveitarfélaga eða af sveitarfélögum með sambærilegum hætti og áður hafði verið gert gagnvart lífeyrisskuldbindingum sjálfseignarstofnana. Þar hygg ég að hnífurinn standi í kúnni, sveitarfélögin kannast ekki við að ríkið sé núna tilbúið til að standa við þetta samkomulag á grundvelli þess skilnings sem þau lögðu í það. Nýja fyrirkomulagið á að taka gildi innan fárra daga og ég held að það sé orðið mjög alvarlegt ástand ef ekki um semst á næstu vikum. Hvað segir hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sem væntanlega hefur sett sig inn í stöðu málsins, ekki margt stærra á hans borði, um þetta? Getur hann fullvissað okkur um að þetta mál verði klárað á næstu dögum og að ríkið standi í einu og öllu við það sem það lofaði sveitarfélögunum á sínum tíma?