146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um lífeyrismál.

[14:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ja, það er nú það. Einn þáttur þessa máls er þessi dagsetning. Við könnumst við það hvernig hún tók breytingum á meðan frumvarpið var til umfjöllunar í þinginu. Nú erum við hæstv. ráðherra að sjálfsögðu ekki að reyna að semja um þetta hér og ganga frá því en ég hef heyrt aðra sögu varðandi þann ágreining sem uppi er og að hann snúi að þeirri aðferð sem ríkið vill hafa og krefst þess að hafa við að leysa málið að sínu leyti, sem er sú að borga ígildi skuldbindinganna inn í Brú, lífeyrissjóð sveitarfélaganna, í staðinn fyrir að yfirtaka skuldbindingarnar sjálfar. Og hvers vegna kann þetta að skipta máli? Jú, vegna þess að með því að yfirtaka skuldbindingarnar yfirtaka menn líka þróun þeirra í framtíðinni, en með því að borga einskiptisfjárhæð inn í sjóðinn kann það að koma verr út og áhættan er á sveitarfélögin. Þetta er sú útgáfa málsins sem ég hef heyrt frá þeim sem hafa verið í þessu af hálfu sveitarfélaganna og ég hef samúð með því sjónarmiði. Ég held að menn verði að standa við samkomulagið efnislega (Forseti hringir.) þannig að það komi út á eitt.