146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um lífeyrismál.

[14:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er a.m.k. skilningur eins sveitarfélags að þarna eigi dagsetningin ekki að skipta máli heldur eigi ríkið að bera ábyrgð um alla framtíð. Það er hins vegar ekki heimilt, eins og hv. þingmaður þekkir sem fyrrverandi fjármálaráðherra, að taka ábyrgðir yfir á ríkið með þeim hætti. Þess vegna var þetta miðað við að það séu 97% af skuldbindingunum, eins og þær eru reiknaðar út á ákveðnum degi, sem samið var um.

Mér er kunnugt um að þetta fór í gegnum ferli þar sem menn tókust á um prósentur og annað, en eins og hv. þingmaður segir er þessi ræðustóll ekki vettvangur til að semja um þetta. Ég tel reyndar að sá samningur sé fullfrágenginn og mér finnst eðlilegt að ríkið standi við hann eins og aðra samninga.