146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem komu fram hjá honum. Hann lýsir áhyggjum af því að meira fjármagn vanti í samgöngumálin og innviðauppbyggingu og þar erum við hjartanlega sammála.

Ég vil líka benda á að ríkið hefur tekjur af umferð og bílum, um 40 milljarða á ári. Ferðaþjónustan skilar um 70 milljörðum á ári svo að ef ekki er lag núna, þegar efnahagur landsins er þetta góður, eins og allar hagtölur benda til, hvenær er þá hægt að fara í að koma vegum landsmanna upp úr malarvegum og í uppbyggða vegi? Hvenær er það?

Ég hef áhyggjur af því að þenslan hér á höfuðborgarsvæðinu hafi enn eina ferðina þau áhrif að nú megi ekki framkvæma úti á landi. Við landsbyggðarbúar höfum staðið frammi fyrir því allt of oft að tekið er niður í framkvæmdum af hálfu ríkisins vegna þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Landsmenn eiga að sitja við sama borð varðandi grunnþjónustu eins og góðar samgöngur; það er allt undir þeim komið að geta lifað eðlilegu lífi varðandi heilbrigðisþjónustu, menntun og allt það sem menn telja sjálfsagt í dag.

Ég held að það sé alveg augljóst að fjármálaáætlun eins og hún lítur út dekkar ekki þá þörf sem er fram undan, því miður, langt, langt í frá. Það þarf líka að uppfæra markaða tekjustofna ríkisins til að ná inn tekjum. Þeir hafa ekki verið uppfærðir samkvæmt verðlagi. En burt séð frá því erum við ekki að fara að horfa upp á það að það eigi að fara að setja á vegtolla hér. Við eigum að geta framkvæmt fyrir það fé sem kemur inn til ríkisins og eigum að nýta þá tekjustofna sem fyrir eru til að byggja upp samgöngukerfi sem hæfir 21. öldinni.