146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:28]
Horfa

Dóra Sif Tynes (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Nú er það svo reyndar í þessum efnum að Noregur hefur að einhverju leyti átt í útistöðum við eftirlitsstofnanir EFTA-stoðarinnar, bæði Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn þegar kemur að reglum um starfsmannaleigur, ég þekki ekki nægilega vel löggjöfina sem hv. þingmaður vísar til til þess að geta lagt mat á hvers eðlis hún er. Ég tel alveg einsýnt að nefndin, fái hún málið til meðferðar, geti borið saman 13. gr. frumvarpsins og 12. gr. tilskipunarinnar til þess að meta hvort svigrúmið sé meira en ella.

Aðalinntak ræðu minnar var að benda á að það á að vera útgangspunkturinn en ekki að verið sé að búa til séríslenskar reglur án þess að skoða hvort það samrýmist hinum evrópsku reglum vegna þess að það verður ramminn undir lokin.