146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér í dag sölu á landi Vífilsstaða sem var í eigu ríkisins en hefur nú verið selt til Garðabæjar. Það er rétt sem fram hefur komið að heimild hefur verið í fjárlögum um nokkurt skeið til þess að selja eignir ríkisins í Garðabæ, en það hefur þó ekki verið gripið til þess fyrr en núverandi fjármálaráðherra kynnti áformin skömmu fyrir páska. Fjármálaráðherra svaraði því þannig til þegar hann var spurður um verðið á landinu, með leyfi forseta:

„Það er líklegt að ef land er selt á of háu verði komi það fram í háu lóðaverði. Ég hef lýst því yfir að ríkið eigi ekki að vera í lóðabraski … Ríkið er að semja við bæjarfélag og við töldum það vænlegra en að semja við lóðabraskara.“

Við þetta er nauðsynlegt að gera athugasemdir. Rétt er að benda fjármálaráðherra á að hann er gæslumaður almannahagsmuna, ekki bara þeirra sem búa í Garðabæ. Byggingarland á höfuðborgarsvæðinu er auðlind. Honum ber því að fá sanngjarnt markaðsverð fyrir þær eignir sem hann selur fyrir hönd eiganda, íslensku þjóðarinnar. Markaðsverð er eitthvað sem hefur þó verið ráðherra hugleikið.

Í annan stað kemur fram í jarðarmatinu að Vífilsstaðalandið er mjög verðmætt byggingarland og grunnverð landsins undir markaðsverði í ákveðnum tilvikum. Slíkt skapar möguleika á virðisauka við skipulagningu og sölu byggingarréttar. Hefur ráðherra einhverja tryggingu fyrir því þegar kemur að sölu byggingarréttar að ekki verði tekið hæsta tilboði með tilheyrandi verðlagningu á byggingarlóðum? Nei, að sjálfsögðu hefur ráðherra enga tryggingu fyrir því.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að sala á lóðum á einum besta og fallegasta stað á höfuðborgarsvæðinu muni þegar þar að kemur lúta lögmálum markaðarins. Ef ráðherra hefur lesið verðmatið sem fylgir samningnum þá kemur þar beinlínis fram undir liðnum Ágóðaskipti, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að byggingarréttur fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði verði seldur á markaði.“

Það er því þvættingur að hugur ráðherra standi til þess að koma í veg fyrir of hátt lóðaverð. Hann hefur akkúrat ekkert um það að segja.

Til að hnykkja enn frekar á þessu kemur fram í kaupsamningi sem ráðherra undirskrifar, með leyfi forseta:

„Byggingarrétt skal kaupandi selja eða úthluta með opnum og gegnsæjum hætti þar sem samið er við hæstbjóðanda.“

Maður hlýtur að spyrja hvort ráðherra hafi yfir höfuð lesið þann samning sem hann gerði við Garðabæ, eða hann skilji hreinlega ekki hvað í honum felist, því það að semja við hæstbjóðanda mun að sjálfsögðu hækka íbúðaverð þvert á það sem ráðherra vill.

Þá er á það bent að lengi hefur verið í umræðunni að land Vífilsstaða kunni að henta vel undir nýtt sjúkrahús. Af lestri samningsins við Garðabæ er ekki að finna stafkrók um að ráðherra áskilji sér einhvern rétt fyrir hönd þjóðarinnar í þeim efnum. Það er með öðrum orðum undir Garðabæ komið hvort ráðist verði í slíkar framkvæmdir. Ætlar ráðherra þá að hlutast til um það að ríkið kaupi land af Garðabæ undir nýtt sjúkrahús?

Útbýtt var hér á fundi í Alþingi svari við fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um ráðstafanir ríkislóða á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir, með leyfi forseta, í svari ráðuneytis ráðherrans:

„Hin almenna stefna ríkisins við ráðstöfun á landi eða öðrum eignum ríkisins er sú að auglýsa allar slíkar eignir með opinberum hætti og taka hagstæðasta kauptilboði enda sé það metið viðunandi.“ — Það var ekki gert í tilfelli Vífilsstaða. — „Afstaða ráðuneytisins hefur verið sú að verðlagning slíkra lóða verði að byggjast á því að reynt sé að staðreyna markaðsverð eða sannvirði slíkra eigna með hlutlægum hætti.“ — Það var ekki gert í tilfelli Vífilsstaða.

„Ráðuneytið sem vörsluaðili ríkiseigna“ segir einnig, „hefur ekki talið sér heimilt að selja lóðir eða landsvæði eða aðrar eignir sínar án auglýsingar og undir eðlilegu markaðsverði eða sannvirði þeirra, jafnvel þó sveitarfélög eigi í hlut.“ — Það virðist hins vegar hafa verið gert í tilfelli Vífilsstaða.

Hvað með verðið á landinu? Á árinu 2001, fyrir 16 árum, gerði verkfræðistofan VSÓ ráðgjöf verðmat á Vífilsstöðum vegna fyrirhugaðrar byggingar sjúkrahúss. Þar var landið metið á 1,8–3,4 milljarða. Ef við uppfærum það mat með byggingarvísitölu fæst verð á bilinu 4,5–8,6 milljarðar. Af hverju var ekki horft til þess mats við kaupsamninginn nú?

Frú forseti. Það er í raun grátbroslegt að lesa það sem haft var eftir ráðherranum við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þau orð hans:

„Það skiptir miklu máli að við temjum okkur breytt vinnubrögð … ég held að það sé gott fyrir Ísland allt að við temjum okkur ný vinnubrögð. Temjum okkur vinnubrögð gagnsæi, …“

Frú forseti. Til að gagnsæi sé eitthvað annað og meira en orðin tóm verður að ræða málin hér á Alþingi. Ég segi fyrir mitt leyti: Var eitthvað að því að ræða sölu á landi Vífilsstaða áður en í hana var ráðist? Af vinnubrögðum hæstv. ráðherra verður ekki annað ráðið en að hann hafi ekki treyst sér í hana. Í því samhengi vil ég benda á að verðmat á landi Vífilsstaða er dagsett 23. nóvember 2016, eða fyrir fimm mánuðum. Þannig að við höfum nú haft tímann fyrir okkur.

Frú forseti. Ég veit ekki hvernig nýju vinnubrögðin virka, en gagnsæi kemur ekki upp í hugann.