146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

endómetríósa.

298. mál
[17:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil af því tilefni minna hæstv. ráðherra og þingheim á að það hafa allir sömu réttindi til bestu mögulegu heilsu og bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Í raun og veru bera konur í því samhengi oft skarðan hlut frá borði. Við vitum að það er síður tekið mark á konum sem leita til lækna auk þess sem þær eru ólíklegri til þess að fá viðeigandi aðstoð en karlar þegar þær leita til heilbrigðisþjónustunnar.

Legslímuflakk veldur gjarnan ófrjósemi eða getur alla vega orðið til þess að konur þurfa aðstoð við að eignast börn. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að bæta úr þeirri stöðu sem nú, er að konur sem eru með (Forseti hringir.) legslímuflakk fá ekki neinn stuðning frá ríkinu til að eignast börn, ef það er rétt skilið hjá mér. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það breytist?