146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

rýmkun reglna um hollustuhætti og matvæli.

443. mál
[19:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að segja frá því að ég kann mjög vel við kisur en hef verið hrædd við hunda síðan ég man eftir mér. Ég verð t.d. smá stressuð þegar ég er úti að ganga og mæti hundum í spássitúr með eigendum sínum, en yfirleitt er það svo að hundaeigendur stytta í taumnum þegar þeir sjá óttaslegið hik mitt. Og þannig á það að vera.

Það er þetta með að hafa aðeins færri reglur en stuðla að meiri tillitssemi sem mér finnst ákjósanlegt í samfélaginu. Ég ræddi þetta einnig fyrir nokkru síðan í umræðu hér í þingsal um rafrettur. Erum við hætt að gera ráð fyrir tillitssemi í samfélaginu í allri löggjöf og reglusetningu? Ég vona ekki. Ég er alla vega ekki tilbúin til að gefa tillitssemina upp á bátinn.

Mér finnst því sjálfsagt að hundar megi fara í göngutúr um götur borgarinnar svo lengi sem það er tekið tillit til þeirra sem óttast þá. Eins þykir mér sjálfsagt að hundar fái að stinga fæti, eða fjórum, inn á opinbera staði eins og kaffihús þótt ég viti og virði að margt fólk óttast dýr eða er með ofnæmi fyrir þeim.

En hvað gerum við þá? Hið auðvelda er vissulega að setja nógu stífar reglur sem taka enga sénsa á að þær geti mögulega orðið einhverjum til ama. En ég vona að við séum ekki sátt við að það verði alltaf auðvelda leiðin sem verður ofan á, að setja reglur sem einfaldlega banna í staðinn fyrir að reyna að takast á við blæbrigði mismunandi þarfa fólks. Hví í ósköpunum ætti okkur ekki að takast að setja reglur með frelsi, skynsemi og tillitssemi, allt í einum graut, að leiðarljósi?  

Með það fyrir augum talaði ég fyrir tillögu sem var samþykkt í borgarstjórn fyrir tveimur árum síðan sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.“

Þessi hvatning frá borgarstjórn Reykjavíkur til ríkisins hefur legið hjá umhverfisráðuneytinu síðan þá, eða fyrir tæpum tveimur árum síðan. Nú er ég því orðin mjög spennt að heyra frá nýjum ráðherra ráðuneytisins um hvað sé að frétta af þessu máli. Það er mín einlæga von að vel verði tekið í að ríkið láti af miðstýringu þessara reglna og treysti sveitarfélögum til að setja sér reglur um hvernig best sé mætt mismunandi þörfum og sjónarmiðum gagnvart blessuðum dýrunum í umhverfi okkar.