146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

rýmkun reglna um hollustuhætti og matvæli.

443. mál
[19:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör og það sem ég túlka sem jákvæð viðbrögð við fyrirspurn minni. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta með að við erum öll í eðli okkar dálítið sveitafólk sem finnst að dýrin eigi að vera í sveit og eigi ekkert erindi í borg, sem eimir enn þá af í umhverfi okkar, óðum að breytast. Umræða um þetta og krafa um að dýr verði eðlilegri partur af lífi fólks, borgarbrag o.s.frv. er að aukast. Það er ekki síst út af því sem þessi hugmynd kemur til. Það er aukaatriði hvernig nákvæmlega verður haldið á því hver hefur þetta boðvald, ákvörðunarvald, reglusetningarvald eða hvað það er. Aðalatriðið er að þessar reglur verði rýmkaðar, á hvers hendi sem það verður. Annað aðalatriði í því máli sem ráðherra kom inn á og ég tek hjartanlega undir er að auðvitað er himinn og haf á milli og algjörlega tvennt ólíkt að ræða um staði sem annars vegar er val að vera á og hins vegar einhvers konar þörf. Bara svo það sé sagt hér er auðvitað fullur skilningur á því að það er munur þarna á milli, en þess vegna er náttúrlega spennandi að sveitarfélögin fái þetta vald til sín því að þau eiga oft auðveldara með að setja einhvers konar kvóta eða hafa betri yfirsýn yfir samfélagið sem þau eru að vinna með. Ég held að það sé gott að hafa í huga.

Vegna þeirra staða sem þarf að vera á eða reglusetning á lengra í land, eins og t.d. með félagslegt húsnæði, þekkjum við t.d. í útlöndum að eldri borgarar sem hafa þurft að láta frá sér dýrin eru mjög glaðir að geta mætt á kisukaffihúsið og njóta kattanna þar, sem ég nefni sem dæmi.

Ég þakka kærlega fyrir.