146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Mig langar enn og aftur að þakka fyrir mjög góða umræðu. Umræða um fátækt er alltaf tímabær. Auðvitað eigum við alltaf að vera reiðubúin að taka hana og hún er alltaf mikilvæg, hvort sem okkur vegnar vel eða illa í efnahagslífinu í heild.

Ég held að það sé samt sem áður mikilvægt að halda því til haga að grundvöllur öflugs velferðarsamfélags er alltaf öflugt atvinnulíf, fjölbreytt og jöfn tækifæri fyrir alla óháð efnahag og öflugt öryggisnet í öllu velferðarkerfinu sem hvílir á þessum sterku stoðum. En auðvitað byggir velferðarkerfi okkar alltaf á verðmætasköpun okkar og þeim tækifærum sem við höfum til að gera betur fyrir þá sem minnst mega sín á grundvelli þess.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu að á þeim góðæristímum sem við búum við núna er jöfnuður mikill og raunar mestur í alþjóðlegu samhengi. Hann hefur farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum og það er athyglisvert að sjá þegar maður horfir á þróunina, bæði á fyrri uppgangstímabilum hjá okkur og líka á þróunina hjá nágrannaríkjum okkar, að jöfnuður hefur aukist hér frá árinu 2010. Á grundvelli Gini-stuðulsins eykst tekjuójöfnuður annars yfirleitt á uppgangstíma. Það er mikilvægt að halda því til haga, það sýnir að á þessum uppgangstíma hefur okkur tekist að forgangsraða í þágu þeirra sem minnst mega sín.

Atvinnustig er hér hátt, það skiptir gríðarlega miklu máli. Fátækt mælist hér hvað minnst í öllu alþjóðlegu samhengi og hefur farið minnkandi.

Við erum að gera ýmislegt sem er til bóta. Við höfum alltaf tækifæri til að gera enn betur. Við erum að bæta greiðsluþátttökukerfi heilbrigðiskerfis okkar. Við erum að hækka sérstaklega lægstu fjárhæðir almannatrygginga og verja til þess verulegum fjármunum á þessu ári og því næsta. Við erum að veita aukið fjármagn til þess að bæta atvinnutækifæri bæði fatlaðra og öryrkja. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Við erum að auka sveigjanleika aldraðra til atvinnuþátttöku að því marki sem þeim er það unnt. Við erum að fjárfesta í félagslegu húsnæði. Við erum að (Forseti hringir.) endurskoða og beina húsnæðisstuðningi sérstaklega að þeim allra tekjulægstu og síðast en ekki síst erum við að endurskoða örorkulífeyriskerfi okkar til að stuðla að aukinni þátttöku í samfélaginu til að eyða þessum ósanngjörnu krónu á móti krónu skerðingum og horfa frekar til starfsgetumats í stað örorkumats eins og nú hefur verið. Það skiptir allt gríðarlega miklu máli og vonandi getum við tekið höndum saman um að draga hér enn frekar úr fátækt.

Takk kærlega fyrir mjög góða umræðu.