146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

dómstólar og breytingalög nr. 49/2016.

481. mál
[15:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar þetta frumvarp þá gerir það ráð fyrir að sakamál sem eru óflutt um áramótin fari yfir í Landsrétt. Þar með er þá gert ráð fyrir því að ekki hafi nokkur vinna verið lögð í málið í Hæstarétti vegna þess að mesta vinnan er auðvitað við flutninginn og eftir flutning þegar mál eru dómtekin. Hæstiréttur er auðvitað með eitthvert verklag á því, en þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að mál sem ekki hafa verið flutt heldur eingöngu verið áfrýjað í Hæstarétt og legið þar, fengið málsnúmer og verið þar í hirslum og beðið flutnings, fari yfir í Landsrétt.

Seinni liður spurningar hv. þingmanns lýtur að framkvæmdaratriðum og varðar málaskrá og er mjög áhugavert úrlausnarefni sem unnið hefur verið að allt frá því að undirbúningur að Landsrétti hófst. Hæstiréttur fékk uppfærða svokallaða málaskrá og tölvukerfi fyrir nokkru síðan og hefur yfir ágætisbúnaði að ráða. Það liggur fyrir að þetta er ein helsta áskorunin í þessu breytta fyrirkomulagi, bæði héraðsdómstólarnir og Landsréttur þurfa að vera í stakk búnir til þess að hlýða á upptökur, taka upp vitnisburð og taka skýrslur af mönnum, og að sama skapi að spila þær í Landsrétti með tilhlýðilegum hætti.

Það hefur kallað á tækjabúnað, endurnýjun á búnaði hjá héraðsdómstólunum og auðvitað nýjan búnað hjá Landsrétti. Fyrir því var gert ráð í fjármálaáætlun og í lögum sem kveða á um millidómstigið. Gert er ráð fyrir kostnaði hvað þetta varðar. Hausverkurinn var öllu heldur sá að finna hentugan búnað og þar fram eftir götunum. Það er í góðum farvegi, að mér skilst, hjá stýrihópi og verkefnastjórn sem hefur með undirbúninginn að gera.