146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð. Ég kannast við ýmislegt þar sem ég hef átt ágætissamstarf um þetta mál í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langaði að spyrja hv. þingmann nánar út í síðustu málsgreinina í nefndarálitinu þar sem segir, með leyfi forseta, að með því „sé stigið mikilvægt skref í átt að því markmiði að tryggja sveitarfélögum sanngjarnar og nauðsynlegar tekjur af auknum ferðamannastraumi svo að þau verði betur í stakk búin til að sinna aukningunni og þeirri nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem hún krefst“.

Telur hv. þingmaður að með þessari heimild til bílastæðagjalds sé stigið nægilega stórt skref í þá átt, þar sem augljóst er að gjöldin eru þjónustugjöld og mjög takmarkað í hvað má nota þau? Það kemur listi fyrir í frumvarpinu sjálfu. Eða telur hv. þingmaður að stíga þurfi enn frekari skref til að tryggja sveitarfélögunum sinn skerf af þeim tekjum — nauðsynlegar tekjur, segir hér — sem aukinn ferðamannastraumur hefur í för með sér til að fara í þá innviðauppbyggingu sem þarf, sem er þá jafnvel ekki tengd umræddum bílastæðum?