146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þá langar mig kannski að rekast aftur á orðið meðalhóf og spyrja hvort ekki væri æskilegra að vísa frekar í vægari úrræði í málum sem þessum þar sem oft er um mjög viðkvæm mál að ræða á milli tveggja einstaklinga sem eiga saman barn, hvers réttur er vissulega í húfi. En er það virkilega svo, og á hvaða grunni byggir sú sannfæring hv. þingmanns, að það sé í samræmi við meðalhóf að beita fangelsisrefsingum í jafn viðkvæmum málum sem þessum þegar um raunverulega forræðisdeilu er að ræða milli aðila? Er ekki viturlegra að hafa frekar vægara úrræði, eins og tímabundna forræðissviptingu, sem viðurlög í þessu máli frekar en fangelsisvist? Þykir hv. þingmanni það ekki ríma betur við meðalhófsregluna að velja vægari úrræði fyrst?