146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:50]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tilgangurinn með frumvarpinu er einmitt að gera þetta skýrara: Þetta flokkast undir það sama og er í 1. mgr., andlega vanrækslu. En af því að þeir sem hafa framkvæmt gildandi lög hafa ekki flokkað þetta undir andlega vanrækslu taldi ég, til að gera það skýrt, nauðsynlegt að hafa sérákvæði um það. Þess vegna er þetta svona. Til þess að skýra þetta. Þetta er gert í þeim tilgangi og sem viðbragð við því sem þegar er í barnaverndarlögunum, að þetta skipti máli fyrir velferð barnsins, þetta er réttur barnsins. Það þýðir ekkert að hafa slíkt í lögum ef forsjárforeldrar komast upp með að hunsa það og haga sér eins og þeim sýnist og gera það árum og áratugum saman og taka af aðilum rétt og setja velferð í uppnám.