146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:44]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Bretland mun ýmist ná nýjum fríverslunarsamningi við Evrópusambandið, og þá líklega að mörgu leyti byggðum á sama grunni og CEDA, eða það mun ekki ná því, og þá mun það falla undir WTO-reglur. Það er óljóst hvaða réttindaskerðingar munu eiga sér stað, en ljóst er að þrátt fyrir góðan vilja verða þær einhverjar. Bretar hyggjast ekki ætla að vera áfram á innri markaðnum. Þetta mun líklega þýða verulega skerðingu á getu Íslendinga til að starfa, sækja sér þjónustu og veita þjónustu í landinu. Þá mun þetta hafa skaðleg áhrif á Bretland til að mynda vegna brotthvarfs erlendra fyrirtækja frá Bretlandi, eins og kemur m.a. fram í bréfi japanska utanríkisráðuneytisins til bresku ríkisstjórnarinnar frá október 2016.

Þetta brotthvarf gæti leitt af sér atvinnumissi hjá allt að milljón manns í Bretlandi á komandi árum, sama hætta gæti átt við um endurupptöku á landamæradeilum á Norður-Írlandi, deilum á Gíbraltar og sjálfstæðistilburðum Skotlands. Því er ljóst að efnahagslegur, pólitískur og félagslegur stöðugleiki í Bretlandi er í stórhættu.

Það getur haft margvísleg áhrif á stöðu Íslands, bæði vegna aukins álags á okkar félagslega kerfi vegna efnahagslegra flóttamanna frá Bretlandi, eitthvað sem við gátum varla látið okkur detta í hug fyrir nokkrum árum, glötuð viðskiptatækifæri, enda Bretland eitt okkar aðalviðskiptalanda. Kannski er ég að draga upp of dökka mynd, en það er engin leið til þess að vita fyrir fram, en nýlegir atburðir í Bretlandi og þá í breskum stjórnmálum hafa gefið mjög lítið tilefni til að ganga út frá bjartri mynd að sinni.

Við verðum að nýta þann tíma sem okkur gefst fram að endanlegri útgöngu Bretlands úr ESB til þess að undirbúa okkar viðbrögð með það fyrir augum að tryggja efnahagslega hagsmuni Íslands, tryggja stöðu þeirra bresku ríkisborgara sem búa á Íslandi í dag og eru í rauninni að lifa í óvissu um framtíð sína og draga sömuleiðis sem mest úr þeim skaða sem mun augljóslega verða til vegna þessara afglapa breskra íhaldsmanna.