146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Nær allt innanlandsflug er rekið frá Reykjavíkurflugvelli. Áætlunarflug er styrkt til sex flugvalla á landsbyggðinni, þ.e. til flugvallanna á Gjögri, Vopnafirði, Þórshöfn, Hornafirði, Bíldudal og í Grímsey. Við ákvörðun um styrki til áætlunarflugs var það markmið í samgönguáætlun lagt til grundvallar að íbúum væru tryggðar samgöngur þannig að ekki tæki lengri tíma en þrjár og hálfa klukkustund að ferðast til höfuðborgarsvæðisins. Þessi tími, þrjár til þrjár og hálf klukkustund, er einnig góð vísbending um hvenær íbúar byrja almennt að kjósa akstur umfram flug. Með hliðsjón af vegasambandi milli Sauðárkróks og höfuðborgarinnar auk vegasambands við Akureyri og síðan innanlandsflug þaðan er það metið svo að þessu markmiði sé náð fyrir íbúa í Skagafirði. Tölur um flug á árunum fyrir 2013, þegar flogið var frá Sauðárkróki, sýna einnig hvernig farþegafjöldi fór ört minnkandi, en þess má geta í því sambandi að hér á árunum um og upp úr 2000 voru farþegar þó nokkuð vel á annan tug þúsunda en voru komnir á þessum árum minnst eins og 2013 í 1.400 farþega.

Þetta ásamt tilkomu Héðinsfjarðarganga voru röksemdir fyrir því að flug á Alexandersflugvöll hefur ekki verið styrkt. Fram til ársins 2013 voru styrkir veittir til flugs á flugvöllinn vegna samgangna við Siglufjörð og nálæg svæði. Isavia hefur fyrst og fremst haldið flugvellinum við sem lendingarstað síðan stuðningur við flug var lagður af. Völlurinn hefur verið notaður til sjúkraflugs þegar þörf hefur verið á. Engar framkvæmdir hafa verið við völlinn um langan tíma, þar af leiðandi er ljóst að kostnaðarsamt yrði að hefja reglubundið flug á Alexandersflugvöll á nýjan leik. Ljósabúnaður er orðinn gamall, gera þarf við slitlag, auk þess sem húsakosti hefur ekki verið haldið við að ráði. Að óbreyttu eru því litlar líkur á því að hafið verði áætlunarflug á Alexandersflugvöll að nýju. Það var reynt í samstarfi við sveitarfélagið Skagafjörð en var lagt af um áramótin 2013/2014 m.a. vegna þessa að færri nýttu sér flugið en vænst var.

Fara þyrfti í miklar fjárfestingar ef hefja ætti flug á Alexandersvöll. Nefna má að áætlunarflug er á Húsavíkurflugvöll. Hann getur því einnig nýst sem varaflugvöllur fyrir innanlandsflug á Akureyri.

Flugrekstraraðilar hafa ekki sýnt þessu mikinn áhuga. Þrátt fyrir þó nokkrar tilraunir hefur gengið illa að fá þá til þess að hefja millilandaflug á þá skilgreindu millilandaflugvelli sem við erum með á Akureyri og Egilsstöðum. Það eru svo sem uppi hugmyndir um það hvernig við getum bætt úr því. Ég held að það væri að mörgu leyti mjög jákvætt ef við gætum stuðlað að beinu flugi í þessa landshluta. Við erum að reyna að vinna að hugmyndum sem að því lúta.

Sem dæmi um uppbyggingarþörf á millilandaflugvelli, ef Alexandersflugvöllur ætti að vera notaður slíkur, má nefna flugverndaraðstöðu, endurnýjun slitlags á vellinum og aðflugsbúnað. Kostnaður vegna uppbyggingar hefur ekki verið metinn nákvæmlega en gera má ráð fyrir því að hann verði jafnvel allt að tveimur milljörðum.

Varðandi varaflugvöll þá er það reyndar mjög áhugaverður vinkill vegna þess að við munum þurfa að horfa alveg sérstaklega til þess að byggja upp öflugri þjónustu við varaflugvelli á Íslandi. Vegna aukinnar flugumferðar sem orðin er um landið er það áhyggjuefni að ef eitthvað gerist í Keflavík sem veldur því að völlurinn lokast um lengri eða skemmri tíma þarf að svara því hvar við ætlum að koma þeim flugvélum fyrir sem eru á leiðinni til landsins á þeim tíma. Við erum enn að skoða það atriði. Það byggist auðvitað á því að stækka flughlöð og hafa skipulagið með þeim hætti að þetta geti gengið upp snurðulaust. Hvort einhver slík lausn er í tengslum við þennan flugvöll verður að koma í ljós við þá athugun.

Ég átti fund á fimmtudaginn í síðustu viku með sveitarstjórn í Skagafirði þar sem við fórum sérstaklega yfir þessi mál. Það er mikill áhugi heimamanna á því að það verði hafið reglubundið innanlandsflug frá Reykjavík og á Alexandersflugvöll. Við munum setja málið í ákveðinn farveg sem verður skoðaður í tengslum við þá endurskoðun sem við ætlum að ráðast í varðandi rekstur innanlandsflugvalla almennt.

Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að við horfum til þess að innanlandsflug verði raunhæfur valkostur fyrir íbúa í ákveðnum svæðum í hinum dreifðu byggðum sem samgönguvalkostur. Til þess þarf verð á innanlandsflugi til almennings á þessum svæðum að lækka. Það er of dýrt. Það er ekki raunhæfur valkostur fyrir flesta íbúa í dag. Það myndi væntanlega þýða hækkun fyrir aðra sem fara sjaldnar, en með breyttu rekstrarfyrirkomulagi, breyttum áherslum á því fjármagni sem ríkið lætur renna til þessa máls, hafa verið nefndar leiðir eins og (Forseti hringir.) svokölluð skosk leið þar sem einmitt er horft til þess að það séu íbúarnir á svæðunum sem njóti þeirra framlaga sem í þetta koma (Forseti hringir.) og þannig örvist notkun á innanlandsflugi. Það gæti orðið grundvöllur fyrir því að endurvekja til að mynda innanlandsflug til Sauðárkróks.