146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það væri mjög gott ef forseti gæti brugðist við þeim athugasemdum sem fram hafa komið um þá staðreynd að aðrar nefndir voru byrjaðar að vinna, voru byrjaðar að fá til sín gesti, það lágu jafnvel fyrir drög að umsögnum frá bæði meiri hluta og minni hluta en ekki var hægt að verða við því að afhenda okkur þessar umsagnir. Ég hefði líka gjarnan viljað fá skýringar frá forsætisnefnd og forseta sjálfum um það af hverju ekki var hægt að verða við beiðni okkar um skýrslu frá Hagfræðistofnun um úttekt á þjóðhagslegum áhrifum þessara breytinga. Það kom fram alla vega í þeim drögum sem ég hafði séð í fjárlaganefnd að þær væru verulega miklar og væri nánast ekkert í greinargerð frumvarpsins sem tæki á þeim breytingum.

Ég vil líka að lokum fá að minna a.m.k. nýju flokkana sem sitja í ríkisstjórn á — ég veit ekki hvort það gagnar neitt að ræða um málefnalega umræðu við Sjálfstæðisflokkinn, en alla vega vil ég minna nýju flokkana á að fram kom í kosningaáherslum flokkanna að þeir vildu (Forseti hringir.) stuðla að góðum stjórnarháttum með áherslu á gegnsæi og gott siðferði. Björt framtíð talaði um að góð mál yrðu betri ef fleiri kæmu að þeim, að skoðanir, þekking (Forseti hringir.) og kunnátta fólks með alls konar bakgrunn og menntun væru fjársjóður og (Forseti hringir.) að upplýsingar væru gull. Man einhver eftir því?