146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

tekjuhlið fjármálaáætlunar.

[16:01]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Rétt til að bæta við varðandi þingsályktunartillöguna þá eru hvorki tekjur né gjöld tekin þarna út. Það er ekkert gat, líkt og hv. þingmaður kom inn á.

Varðandi komugjöld myndu þau alls ekki skila meiri tekjum en virðisaukaskattsbreytingarnar eiga að gera. Fyrir utan það er það ekki útfært þegar fjallað er um komugjöld í umræðunni. Það er ekki talað um hvernig það leggst á innanlandsflug, hvort einhverjar mótvægisaðgerðir geti komið til eða útfærsla sem leiði til þess að ekki þurfi að leggja mörg þúsund krónur á annan legg í innanlandsflugi. Það hefur heldur ekki verið rætt hver upphæðin yrði og hvaða áhrif það hefði. En komugjöld munu ekki skila meiri tekjum til ríkisins en virðisaukaskattsbreytingin á að gera.

Hvað varðar flugstöðina erum við hv. þingmaður greinilega ósammála um það. En það eru engin (Forseti hringir.) annarleg sjónarmið að baki skoðun minni. Þetta er mín pólitíska skoðun og sýn.