146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

sjálfbær ferðaþjónusta og komugjöld.

[16:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar, ég gleymdi að koma inn á það svar. Ég var búin að punkta það hjá mér en það var svo margt áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á.

Varðandi komugjöldin hef ég ekki komið fram með það sem tillögu í aðgangsstýringu eða tekjuöflun. Við vinnum nú með þær áætlanir um að færa það sem eftir er af ferðaþjónustunni sem ekki var í almennu þrepi upp í almennt þrep. Ég sagði þá að við værum ekki að fjalla um komugjöld samhliða, nema ef menn opnuðu síðan á einhverja breytta útfærslu á virðisaukaskattskerfinu til þess að koma einnig með hitt, þá væri það eitthvað sem við skoðuðum, en mér finnst ekki hægt að ana út í það sem hreina tekjuöflun. Komugjöldin þurfa að vera tiltölulega há til þess að þau þjóni þeim markmiðum.

Varðandi mál Vinstri grænna lagðist ég (Forseti hringir.) svo sem ekki sérstaklega yfir það frumvarp en mér skildist að það hefðu verið einhverjar spurningar varðandi skuldbindingar út af EES sem þar var að finna, án þess að ég fullyrði þar um.