146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[16:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp, eins og hefur svo sem komið fram og ætti ekki að koma neinum á óvart, til að lýsa því yfir að að sjálfsögðu styð ég áfram, eins og ég hef gert, lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þegar ég var hér á kjörtímabilinu 2009–2013 lagði ég ítrekað fram frumvarp sem sneri að því að búa til lagaumhverfi til að hvetja til húsnæðissparnaðar og horfði þá til eldri fyrirmynda. Samþingmaður minn, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, hefur ítrekað lagt sambærilegt mál fram hér á þingi. Og þegar við höfðum tækifæri til, þegar við vorum komin í stjórn, var þetta eitt af því sem við lögðum mikla áherslu á, að búið yrði til varanlegt fyrirkomulag fyrir einstaklinga, fyrir ungt fólk, til að leggja til hliðar og eiga fyrir útborgun í íbúð. Bent hefur verið á að þetta hefur reynst helsti vandi fyrstu kaupenda að húsnæði, það er útborgunin, ekki afborgunin af lánum heldur að eiga fyrir útborgun.

Við erum með öflugt fyrirkomulag lífeyrissparnaðar, við erum með öflugt almannatryggingakerfi og við höfum líka á undanförnum árum verið að auka séreignarsparnað, samningsbundinn séreignarsparnað á vinnumarkaðnum, og þar af leiðandi voru allar forsendur komnar fyrir því að nýta hluta af iðgjöldunum, uppsöfnuðum lífeyrissparnaði, inn á það sem hefur verið hinn stóri sparnaður, langtímasparnaður heimilanna hér á Íslandi, sem er húsnæðið. Árangurinn er af þessu úrræði og líka því fyrirkomulagi varðandi höfuðstólslækkunina og skuldaleiðréttinguna í heild þar sem notkun séreignarsparnaðar var hluti af því úrræði. Við höfum séð það síðan í öllum tölum sem hafa verið að birtast um stöðu heimilanna að fólk hefur í auknum mæli verið að borga húsnæðislánin sín hraðar niður. Það er einkar jákvætt, mjög jákvætt. Við höfum eiginlega ekki séð sambærilegar breytingar áður.

Viðhorfið á Íslandi hefur kannski stundum verið þannig, og allt of oft, að það að fá lán sé einhvers konar heppni, það felist lukka í því að taka lán hjá fjármálastofnun. Við settum einhvers konar met í aðdraganda hrunsins varðandi skuldsetningu, hvort sem við vorum að horfa til fyrirtækjanna eða heimilanna og sveitarfélögin gerðu svo sem sitt líka í að taka allt of mikið af lánum.

Við erum hins vegar að sjá mjög breytta hegðun hjá heimilunum þannig að fólk er í auknum mæli að borga niður skuldir sínar, borga inn á höfuðstól húsnæðislána. Það gleður mig líka að sjá nýlegar tölur um að þessi hegðun snýr ekki bara að húsnæðislánum, heldur skilar hún sér líka inn í almenna einkaneyslu, þannig að kreditkortanotkun og yfirdráttarlán hafa ekki vaxið með sama hætti og einkaneyslan hefur verið að vaxa. Við sjáum því að aðgerðir stjórnvalda á síðasta kjörtímabili hafa verið að skila sér í því að aukinn hvati er til þess að borga hraðar niður skuldir. Það er náttúrlega hugsunin hér líka, að eiga sem mest í íbúð eða húsnæði þegar menn fara að kaupa í fyrsta sinn.

Eins og ég skil þetta mál er verið að gera ákveðnar tæknilegar breytingar á útgreiðslu iðgjaldanna og hvernig það reiknast, þ.e. þau réttindi sem einstaklingarnir eða fjölskyldurnar eiga, auk þess sem hér er smávægileg breyting á lögum um opinber fjármál sem fær svona að fljóta með frá nefndinni.

Ég vil aftur koma að því sem ég spurði flutningsmann málsins um, hv. þm. Óla Björn Kárason, sem sneri einmitt að því sem við Framsóknarmenn höfum kallað aðra fasteign. Það voru þúsundir manna sem misstu heimili sín eftir bankahrunið vegna atvinnuleysis, vegna veikinda eða vegna þess að skuldsetning og/eða veðsetningarhlutfall viðkomandi heimila var allt of hátt. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á það að ég hefði verið í þeirri stöðu að geta haft áhrif á það. Því miður tókst það einfaldlega ekki í þessum lögum að tryggja að svo væri hjá þeim sem hefðu átt fasteign fyrir, þó að við í velferðarráðuneytinu hefðum ítrekað reynt að koma því á framfæri. Þetta mál var ekki flutt af mér, eða lagafrumvarpið, heldur af hæstv. fjármálaráðherra sem er núverandi forsætisráðherra, hv. þm. Bjarni Benediktsson, og jafnframt að halda inni einhverju sem okkur tókst að ná inn varðandi skuldaleiðréttinguna, að það væri möguleiki að nýta það líka þegar kæmi að búseturétti.

Ég tel að ég hafi svo sem náð ýmsu fram í samskiptum mínum við fjármálaráðuneytið þegar ég sat í velferðarráðuneytinu, en því miður tókst ekki að ná þessum breytingum í gegn á þeim tíma. En hins vegar erum við Framsóknarmenn þekktir fyrir að gefast ekki upp þegar við höfum trú á málstaðnum, þannig að við munum halda áfram að tala fyrir þeim breytingum. Það er mjög ánægjulegt að heyra að formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að minnsta kosti þegar kemur að svokallaðri annarri fasteign, sýni þessu skilning og telji rétt að það verði skoðað við meðferð málsins í nefnd.

Síðan held ég að það væri líka mjög hollt og gott ef nefndin myndi kalla eftir því frá ríkisskattstjóra og jafnvel einstökum lánastofnunum hvernig ferlið er í sjálfu sér þegar einstaklingar kaupa íbúð eða gera tilboð í kaup á íbúðum, hvernig greiðslumatið fer fram og hvernig séreignarsparnaðurinn er reiknaður þar inn þegar fólk gerir tilboð á grundvelli greiðslumats og síðan jafnframt hvernig ferlið er þegar kemur að því að byggja. Það hefur á undanförnum árum, jafnvel áratugum, dregið mjög úr því að fólk byggi sjálft. Langmest af íbúðarhúsnæði er byggt af verktökum, stórum verktakafyrirtækjum, þannig að það tilheyrir kannski að mínu mati allt of mikið fortíðinni að einstaklingar eða fjölskyldur taki sig saman og byggi parhús eða raðhús eða fari í það að byggja lítil einbýlishús eins og gert var í Smáíbúðahverfinu á sínum tíma. En það breytir því ekki að hægt er svo sem að breyta því eins og öðru sem eru mannanna verk.

Ég held að full ástæða væri til að skoða hvað hægt er að gera til þess að létta á fjármagnskostnaðinum sem getur falist í byggingarferlinu með því að vera með mjög dýr yfirdráttarlán. Ég þekki því miður fjölmörg dæmi þess að þetta hafi verið eitt af því sem hafi farið illa með margar fjölskyldur eftir hrun, þegar fólk lenti jafnvel í því að vera ekki búið að selja fyrri fasteign og vera að byggja nýtt hús og að það hafi eiginlega verið þetta fyrirkomulag á fjármögnuninni sem hafi farið verst með fólk. Og gott væri ef eitthvað væri hægt að gera til að koma í veg fyrir það, eins og mér skilst að sé með þeim hætti núna, að horft sé fyrst til þess að einstaklingur þurfi að taka lán, þar af leiðandi taka hærra lán, borga meiri gjöld til hins opinbera, áður en hann getur fengið útgreiddan séreignarsparnað sinn til að lækka höfuðstólinn eins og fyrirkomulagið er.

Eitt af því sem ég legg mjög mikla áherslu á þegar kemur að húsnæðismálum er að fólk hafi val. Fólk sé ekki neytt til að eiga eigið húsnæði, heldur að það geti valið um það. Það var hugsunin á bak við það í lögunum um stuðning við kaup á fyrstu íbúð. Það var líka hugsunin varðandi breytingar á húsnæðissamvinnufélögum og þar af leiðandi væri það mikilvægt að þeir sem velja frekar að kaupa búseturétt en að kaupa sér íbúð eða byggja, gætu líka nýtt sér séreignarsparnað sinn. Það tókst að koma þeirri hugsun í gegn í höfuðstólslækkunarferlinu, en því miður tókst það ekki þegar kom að varanlegu lagaumhverfi varðandi húsnæðissparnað. Það er að mínu mati mjög miður.

Að einhverju leyti stoppar maður við það að þeir sem hafa talað fyrir frelsi séu ekki tilbúnir til þess einmitt að gefa fólki tækifæri á að velja raunverulega hvort það vilji kaupa sér búseturétt eða kaupa sér íbúð eða byggja.

Ég vil því eindregið hvetja nefndina til að fara yfir þær ábendingar sem ég kem hér með þótt tíminn sé skammur. Ég tel því mikilvægt í ljósi þess að málið kemur þetta seint fram að sýna því skilning. Ég vona svo sannarlega að framsögumaður og nefndin skoði vel þær ábendingar sem ég er með hér og sýni þeim skilning og við getum þar af leiðandi afgreitt málið í góðri sátt eins og hefur verið hingað til varðandi þessi lög.