146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að erfitt sé að segja að ég sé í andsvari við hv. þingmann þar sem ég er einn af flutningsmönnum málsins sem nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd. En ég vildi hins vegar gjarnan koma hingað upp og fá að heyra afstöðu formanns allsherjar- og menntamálanefndar varðandi atriði sem ég nefndi þegar við vorum að afgreiða málið úr nefnd um hvaða aðra þætti hún teldi ástæðu til að skoða um breytingar á útlendingalöggjöfinni og kannski afmarka aðeins, því að þetta er náttúrlega stór löggjöf, það sem snýr sérstaklega að því hvað við getum gert meira til þess að stuðla að því að ungt fólk komi hingað til lands annaðhvort, eins og hér er verið að tala um, sem skiptinemar eða jafnvel til starfa tímabundið. Það voru sett inn ákveðin ákvæði sem áttu að opna fyrir svokallaða „working holiday“-samninga við önnur lönd. Við höfum verið langt á eftir nágrannaþjóðunum okkar varðandi það að gera slíka samninga — ég held að ekki sé einn einasti samningur sem enn þá hefur verið gerður meðan allt í kringum okkur eru þjóðir með samninga t.d. við Ástralíu og Nýja-Sjáland — sem gæfu ungmennum í þeim löndum tækifæri til þess að fara og vinna tímabundið og koma svo aftur. Að sama skapi gætu Ástralir og Nýsjálendingar komið hingað.

Síðan er annað atriði sem ég held að mikilvægt væri fyrir nefndina að fara vel yfir með ráðuneytinu, að vinsælli hluti af þeim breytingum sem voru gerðar á útlendingalögunum sneri að því að verið var að útvíkka möguleika fólks á því að koma hingað og vinna, sem er þá utan EES-svæðisins.

Nú höfum við séð og heyrt og lesum dags daglega um ástandið í stjórnmálunum í Bandaríkjunum. Það hefur einmitt heyrst að töluverður áhugi sé, t.d. úr fræðasamfélaginu í Bandaríkjunum, á að skoða það að flytja til annarra landa sem eru þá kannski frjálslyndari í skoðunum og frjálslyndari samfélög. Kanadamenn hafa aðeins fundið fyrir þessu. Mig langar að spyrja hvort þetta væri eitthvað sem hægt væri að skoða betur, hvað við gætum gert (Forseti hringir.) til þess að laða hingað vel menntað og flott fólk frá löndum eins og Bandaríkjunum.