146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það vandamál að við vitum ekki einu sinni hvað á að skoða þegar forsendur breytast á þann hátt sem gengið gerir nú. Þegar ég sé að gengið er að styrkjast eða veikjast ætti ég að geta farið beint í áætlunina til að fylgjast með þeim þáttum, hvort sem við höfum greiningu á því í hvaða átt mál þróast eða ekki; þetta eru áhættuþættir eða eitthvað því um líkt.

Það væri mjög áhugavert að fá athugasemdir frá hæstv. fjármálaráðherra um þessi mál miðað við það hvernig þetta hefur breyst frá því fjármálaáætlun var lögð fram og hvernig horfur eru núna fyrst breytingin er svona mikil. Þetta er ekkert smávægileg breyting eða flökt. Við erum að tala um 11–12%.

Annað málefnasvið, sem hv. þingmaður kom inn á, var málefni háskólans en í meirihlutaáliti er sagt að 7,7% hækkun sé til þess skólastigs og nái ekki til þeirra framlaga sem lofað var í Tækni- og vísindasjóði. Nú eiga menn að vera að gera nýja áætlun þar. Hún átti að klárast á vormánuðum. Ég hef ekki séð að hún hafi birst enn þá. Það væri einnig áhugavert að vita hvort tillit sé tekið til fjármálaáætlunar í þeirri vinnu. Maður sér ekki neitt mark um hana í fjármálaáætluninni sjálfri. Eins og ég sagði áður eru framlögin sem ætluð eru í háskólastigið langt undir þeirri spá um hagvöxt sem við verðum að hafa. Við verðum því að forgangsraða þessum málaflokkum, sjúkrahúsþjónustu, háskólastigi og líka framhaldsskólastigi, mun neðar en við höfum áður gert. Við erum að draga úr vægi þeirra í þeim hagvaxtararði sem við erum að vinna með í hlutdeild þjónustunnar sem við veitum.