146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Við erum algjörlega á sama stað varðandi reksturinn á Landspítala og fjármögnun til næstu ára. Auðvitað eigum við að hlusta á stjórnendur stofnunarinnar. Þau hljóta að þekkja stöðuna. En vissulega var verulegum fjármunum bætt inn í heilbrigðiskerfið á síðasta kjörtímabili, bæði til tækjakaupa og rekstrar, en það er bara ekkert búið. Það er ekki nóg. Við verðum að halda áfram á þessari vegferð. Fyrirliggjandi fjármálaáætlun ber þess ekki merki að það sé stefnan. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og líka því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi áðan, mig minnir að það hafi verið hún, varðandi stjórn yfir Landspítalanum. Ég er sama sinnis. Maður veltir því fyrir sér hver sé tilgangurinn. Ég hefði áhuga á það heyra það frá stjórnarþingmanni kannski á eftir hvernig stjórnarmeirihlutinn sér það fyrir sér (Forseti hringir.) og hverju ætti að ná fram með því að skipa sérstaka stjórn yfir Landspítalanum.