146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og efnistökin í þessu stóra máli. Mig langar samt að bregðast við því sem hún segir, af því að ræðuformið heitir andsvar. Í fyrsta lagi vil ég benda á að um umfjöllun um fjárfestingarstig og öflun upplýsinga um það er fjallað í meirihlutaáliti okkar. Að frumkvæði fjárlaganefndarmannanna Njáls Trausta Friðbertssonar og Theodóru Þorsteinsdóttur var hafist handa við ákveðna vinnu í þeim efnum. Mig langar að biðja þingmanninn að bregðast við því hvort hún telji þá ekki að verið sé að nálgast það verkefni og viðhorf hennar til þess.

Hún setur fram þau sjónarmið að minnka aðhaldsstigið. Nú höfum við frekar verið gagnrýnd fyrir það af greiningaraðilum að hafa ekki nógu mikið aðhald á ríkisfjármálum. Ég vil aðallega spyrja hana um áhrif þess að slaka á aðhaldsstigi ríkisfjármála á gengi og þróun efnahagsmála næstu mánaða ef við færum að tillögunni sem hún flutti.