146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:43]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að hlusta á umræðurnar hér varðandi ríkisfjármálaáætlun og kannski margt viðbúið. Það má segja að þeir flokkar sem skilgreina sig til vinstri, Samfylking og Vinstri græn, telji engan veginn nægjanlega að gert og vilji stórauka skattheimtu til þess að fjármagna enn frekari útgjöld, sem er umhugsunarvert því að hér er skattstig í alþjóðlegu samhengi í hæstu hæðum nú þegar. Þessir flokkar virðast telja getu almennings og fyrirtækja takmarkalausa til þess að taka á sig auknar skattbyrðar og raunar engin takmörk sett hversu mikið megi belgja út ríkisbáknið í því samhengi.

Það er skýr forgangsröðun í ríkisfjármálaáætluninni. Verið er að auka útgjöldin verulega á tímabili áætlunarinnar til viðbótar við þá miklu aukningu sem þegar er var milli áranna 2016 og 2017. Forgangsröðunin er afar skýr í þágu velferðarmála þó svo að lítið sé gefið fyrir þá miklu aukningu og þá miklu áherslu sem t.d. er lögð á öldrunarþjónustu og heilsugæslu, sem mun létta verulega byrðar á Landspítalanum og skapa hagræði þar á móti og auka þar af leiðandi afkastagetu spítalans.

Mér þykir áhugavert að hlusta á málflutning Pírata í þessu efni. Ég er eiginlega að reyna að átta mig á því hver pólitísk sýn Pírata sé á ríkisfjármálaætlun því að mér finnst aðfinnslurnar fyrst og fremst vera tæknilegs eðlis og að þeim þyki sem áætlunin sé engan veginn nægjanlega skýr. Með vísan til hins ágæta konfektkassa Forrests Gumps þá er smökkunin í tengslum við fjárlagagerðina á haustin en ekki í tengslum við fjármálaáætlunarvinnuna á vorin þar sem ætlunin er að draga áfram hinar pólitísku megináherslur og forgangsröðun. Þess vegna þætti mér áhugavert að heyra frá Pírötum: Vilja þeir aukna skattheimtu til aukinna útgjalda (Forseti hringir.) eða hvernig viljið þeir nálgast þessa áætlun pólitískt?