146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa það á mig að þessi breytingartillaga frá Samfylkingunni hafði farið fram hjá mér í öllu því magni gagna sem fyrir liggur í þessari umræðu. Ég hef því ekki kynnt mér hana, en mun gera það eftir þetta. Ég er sammála hugmyndinni og sammála því að það er algerlega metnaðarlaust að ekki eigi að setja meira í þróunarsamvinnu, þó svo að allir flokkar taki undir markmiðið um að stefna eigi að þessum 0,7%. Eins og hv. þingmaður lýsti breytingartillögu Samfylkingarinnar er það einmitt tillaga um það hvernig hægt sé að ná þessum markmiðum í skrefum. Ég hef haft það fyrir reglu að gefa ekki alveg skýrt út hvort ég sé til í að styðja eða ekki styðja eitthvað sem ég hef ekki séð konkret hvernig lítur út. En hugmyndinni er ég algerlega sammála vegna þess að mér finnst það til háborinnar skammar að ekki sé meiri metnaður í þessum málum. Ég verð að fara í að skoða þessa tillögu. Og þó svo að það sé ekki mitt að leggja spurningar fyrir hv. þingmann sem kemur í andsvar við mig til að spyrja spurninga væri fróðlegt að heyra — því að við áttum okkur á að þetta kostar peningar — hvernig Samfylkingin sjái það fyrir sér að við getum aflað tekna, eða hvaðan eigi að taka fjármuni til þess að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.