146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Mér finnst mjög mikilvægt að við drögum það fram í umræðunni hvað þessi aðhaldskrafa þýði í rauninni fyrir fólkið í samfélaginu. Það er rétt að aðhaldskrafan er minni, sem betur fer þó þegar kemur að heilbrigðis- og velferðarmálunum. Það er hins vegar verið að auka hana þegar kemur að sviði menntamála. Ég hef áhyggjur af stöðu framtíðarinnar í því, því að í mínum huga er menntun fjárfesting til framtíðar, ekki síður mikilvægari fjárfesting en að greiða niður skuldir. Það tengist aðeins inn á það sem hv. þingmaður fjallar um í umsögn sinn, en þá reyndar kannski frekar það sem snýr að rannsóknum, nýsköpun og þekkingu, sem er auðvitað tengt menntun.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fjalla aðeins nánar um þetta sem hann dregur fram í umsögn sinni (Forseti hringir.) og að þarna vanti svo sannarlega fjármagn inn.