146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því sem hv. þingmaður nefndi í lokin, þykir mér það skárra? Þá ætla ég bara að vísa til þess sem ég sagði ræðu minni. Mér þykir ástæða til að við hér, fjárlagavaldið, löggjafarvaldið, séum í stóru myndinni en ekki eins og í dæmunum sem ég las upp þegar fjárlaganefnd var að ákveða að hækka um hálfa milljón eða eina milljón til einstakra leikfélaga eða glímufélaga eða hvað það nú er. Ég vil treysta framkvæmdarvaldinu fyrir því að úthluta fjármunum til stofnana og verkefna, að því gefnu að þau heyri undir og séu í takti við þau markmið sem sett hafa verið fram í fjármálaáætluninni.

Svo gleymdi ég að koma inn á það sem við höfðum sagt í áliti okkar í hv. utanríkismálanefnd og langar að koma inn á, að þar erum við til að mynda að tala um hagsmunagæsluna út af Brexit sem er mjög mikilvægt mál. Þarna erum við kannski fyrst og fremst að leggja áherslu á að þarna á fókusinn í utanríkisþjónustu okkar að liggja. Við teljum okkur nefnilega ekki þess umkomin að leggja til að fjölgað sé um einn eða tvo starfsmenn eða hvað það á að vera. Þar treystum við (Forseti hringir.) fagfólkinu í ráðuneytunum. Við leggjum áherslu á þetta mikilvæga mál.