146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðu hans. Hv. þingmaður situr í umhverfis- og samgöngunefnd og varði nokkru af sínum tíma í að tala um það málefnasvið hefði ég áhuga á að ræða við hann um, þ.e. um hugmyndir sem snúa að borgarlínunni. Ég veit líka að hv. þingmaður hefur fjallað mikið um loftslagsbreytingar almennt og áhyggjur sínar af því sem er að gerast með umhverfið.

Ég hef hingað til verið frekar jákvæð gagnvart borgarlínunni en hef hins vegar orðið meira hugsi undanfarna daga þar sem komið hafa fram ábendingar um að það kunni hugsanlega að vera mistök að ætla að fara í tuga milljarða fjárfestingu, við erum að tala um 50–100 milljarða fjárfestingu í borgarlínunni á sama tíma og við munum núna á næstu 10–15 árum sjá byltingu í framleiðslu sjálfkeyrandi bíla, sem væri hægt að nýta með öðrum hætti, samnýta með öðrum. Í staðinn fyrir að bílarnir eyði langmestum tíma á bílastæðum að bíða eftir eigendum sínum væri hægt að samnýta þá með öðrum, sem er sambærilegt við það sem við sjáum að gert er í ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk samkvæmt nýju verklagi þar. Hv. þingmaður eða flokkur hans á aðkomu að meiri hluta bæði í Reykjavík og Mosfellsbæ, sem eru ein af þeim sveitarfélögum sem leggja áherslu á borgarlínuna. Hefur hv. þingmaður sjálfur verið að velta fyrir sér hvort það séu réttar áherslur að horfa til gífurlega mikillar fjárfestingar þegar við sjáum væntanlega fram á að í næstu tæknibyltingu muni verða breyting á notkun á bílum þegar kemur að okkar daglega lífi?