146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Bændablaðið getur stundum verið fagurlega grænt í augum okkar sem berjumst fyrir sjálfbærum náttúrunytjum. Ég las þar samantekt á ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Bjartar Ólafsdóttur, á fræðslustefnu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og svo hlýddi ég á svipaða jákvæða umhverfisræðu á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands á miðvikudaginn var. Á sama fundi kom fram að stofnunin hefur þolað samdrátt í tekjum vegna síminnkandi framlaga ríkisins sl. fjögur ár þrátt fyrir aukin verkefni. Þar kom líka fram að stöðugildum hefur fækkað jafnt og þétt í allnokkur ár. Þetta er stofnunin sem á að vakta framvindu í náttúru Íslands. Þegar háleit orð umhverfisráðherra og þessi raunveruleiki eru borin saman sést glöggt hve illa fjármálastefna ríkisstjórnarinnar rímar við yfirlýsingarnar.

Þetta dæmi sýnir í hnotskurn að þrjú ár með 1,6 milljarða framlagi samtals til umhverfismála og tvö ár með 300 millj. kr. niðurskurði gera stefnu stjórnarinnar í þessum efnum að hálfgerðu umhverfisslysi, þ.e. ef fram fer sem horfir. Og hvað gerum við í þessu máli málanna — þetta er samviskuspurning, hv. þingmenn — til fimm ára?

Svo að lokum í anda samræðnanna ætla ég að skora á hv. stjórnarþingmenn sem hér eru inni og helst fleiri að veita mér andsvör í umræðum um ríkisfjármálin á eftir og jafnvel í næstu viku ef áfram heldur sem horfir, því að þótt mér þyki mjög vænt um stjórnarandstöðuþingmenn væri mikil tilbreyting í að sjá eða heyra aðra í andsvörum í þessu mikilvæga máli sem er ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.