146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann gerði að umtalsefni efnahagslegar forsendur og efnahagshlið áætlunarinnar. Hv. þingmaður vísaði til umsagnar fjármálaráðs. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þá umsögn. Sett eru mjög stór spurningarmerki við þann skort á greiningum sem einkennir alla áætlunina, en líka þau atriði sem hv. þingmaður vísaði til, að við byggjum í raun og veru á einu spálíkani. Það er mikil þörf á því að við förum að endurskoða það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver hans sýn til lengri tíma er ef við höfum haft hér inni tillögur um stofnun þjóðhagsstofnunar. Við erum með samþykkta tillögu um gerð langtímaþjóðhagsáætlana. Við erum með fjármálaráð sem er kannski það sem við ættum að byggja á til lengri tíma ef við búum almennilega að því. Það er umhugsunarefni að ef fjármálaráðið á að vera annar af tveimur stólpum við hagstjórn ríkisins þar sem peningastefnan er öðrum megin og fjármálastefnan hinum megin, þá erum við með peningastefnu sem styður sig við starfsfólk Seðlabankans og hefur talsvert batterí til þess að byggja á sínar greiningar og sína vinnu. Síðan erum við með fjármálaráð sem er í raun og veru ekki með neitt batterí í kringum sig. Þar sem svipuð lög hafa verið innleidd er fjármálaráð þar sem þau hafa úr meiru að spila.

Ég vil spyrja hv. þingmann hver hans sýn er. Þurfum við sjálfstæða þjóðhagsstofnun? Þurfum við sérstaka deild hér á Alþingi til þess að horfa til lengri tíma? Hagfræðideild Alþingis? Eða á fjármálaráðið að vera sá aðili sem tekur að sér að gera (Forseti hringir.) slíkar þjóðhagsspár til lengri tíma þannig að við fáum aukna fjölbreytni í þetta?