146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það má eiginlega segja að upplifun Ríkisendurskoðunar sem á að vera sú stofnun sem hve talnagleggst er hafi verið ákveðin ráðvilla af því að öllu er grautað saman. Erfitt er að skilja hvenær á þessu tímabili greitt er út til ólíkra málaflokka og á einhvern hátt verður að treysta á að þetta fari einhvern veginn. Mér finnst þetta mjög alvarlegt ástand sem við erum í núna og ég verð bara að endurtaka það sem ég sagði áðan, ekki undir neinum kringumstæðum finnst mér að við eigum að virða þessa fjármálaáætlun. Hún er hreinlega ekki tilbúin og mér finnst stór tíðindi að villa um fyrir þingheimi og öðrum með því að halda því fram að áætlunin sé byggð á þeim forsendum sem krafist er í lögum um opinber fjármál.

Mér finnst alveg rosalegt að fá þessar upplýsingar núna rétt fyrir þinglok. Þetta er rosalegt. Ég er búin að fara aðeins yfir umsagnirnar sem komu um málið og þær eru allar á nákvæmlega sama veg, að það sé óvissa. Eitthvað virðist hafa gleymst sem tilheyrir þessari stofnun eða samtökum sem heyra undir fjárlög og við verðum að hafa það þannig að þegar fjárlög verða rædd taki þau ekkert mið af þessari fjármálaáætlun. Það er bara þannig.