146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn ætlar ekki að virða þessa áætlun verði hún samþykkt. Ég held að hún sé ekkert ein um það. Mér heyrist enginn stjórnarliði ætla að virða hana eins og þeir tala, nema mögulega hæstv. fjármálaráðherra sem ætlar að beita henni sem spennitreyju á fólk þegar hann kemur með niðurskurð eða sveltifjárlögin í haust. Þá yrði aldeilis skemmtilegt upplitið á stjórnarliðunum sem í þessum umræðum hafa talað um ríkisfjármálaáætlun sem einhvers konar viðmið sem við getum breytt í haust. Óekki, held ég að ráðherrann segi þá.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk líka á sinn fund umboðsmann Alþingis. Mér fannst fróðlegt að heyra hvað Ríkisendurskoðun hafði um áætlunina segja, en mér þætti ekki síður fróðlegt að heyra hjá þingmanninum hvað umboðsmanni Alþingis þykir um þá stemningu sem virðist vera meðal stjórnarliða, að framselja (Forseti hringir.) upp í Arnarhvol einhvern hluta af fjárveitingavaldi þingsins, þvert ofan í skyldur okkar samkvæmt stjórnarskrá. Mér þætti áhugavert að heyra hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki fengið hljóð úr horni þegar umboðsmaður Alþingis kom í heimsókn.