146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

skuldastaða heimilanna.

521. mál
[12:22]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er fagnaðarefni að skuldastaða heimilanna hefur verið að batna jafnt og þétt á undanförnum árum. Þar eru fjölmargir þættir sem skýra. Það er ört vaxandi kaupmáttur, hrein og klár niðurgreiðsla skulda, ýmis úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til á undanförnum árum. Það má tala um 110%-leiðina, úrræði um sérstaka greiðsluaðlögun í gegnum umboðsmann skuldara á sínum tíma og nú síðast leiðréttinguna og bæði beina höfuðstólslækkun vegna hennar og möguleika heimilanna til að nýta sér séreignarsparnað til að greiða beint inn á höfuðstól lána.

Allt þetta, og til viðbótar má benda einfaldlega á varfærni heimilanna, hefur leitt til þess að eignastaða þeirra hefur batnað mjög mikið. Það er á einföldu máli fyrst og fremst vegna hækkandi húsnæðisverðs og þeirrar staðreyndar að húsnæðislán landsmanna hafa að nafnvirði staðið í stað yfir tímabilið frá 2010–2015, hækkað um 0,7%, sem þýðir í raun, þar sem stærstur hluti þessara skulda er verðtryggður, að heimilin hafa verið að greiða nettó niður meira en sem nemur verðbólgu tímabilsins.

Allt helst þetta í hendur. Eiginfjárstaðan hefur þá fyrst og fremst styrkst yfir heildina litið vegna hækkandi húsnæðisverðs en engu að síður hafa heimilin greinilega greitt verulega niður af skuldum sínum á tímabilinu, ekki hvað síst í öðrum skuldum sem hafa lækkað um 20% á tímabilinu sem um ræðir.

Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að við höfum greinilega öll dregið okkar lærdóm af áfalli hrunáranna og gengið hægt um gleðinnar dyr síðan og heimilin verið mun varfærnari í ákvörðunum sínum og skuldsetningu en var í aðdraganda efnahagshrunsins 2008–2009.

Hvað varðar þróunina nýverið, þ.e. utan þess tímabils sem um ræðir, 2010–2015, bendir allt til þess að þróunina sé áfram mjög áþekk. Það eru ekki mikil merki um aukna skuldsetningu enn. Áframhaldandi hækkun fasteignaverðs hefur styrkt verulega eiginfjárstöðu heimilanna til viðbótar við það sem þegar hefur verið nefnt í svari hér. Eignir heimilanna frá 2010–2015 hafa þannig hækkað um 35%, eða úr liðlega 3.500 milljörðum í 4.800. Skuldir vegna íbúðalána á sama tíma hafa sem fyrr segir staðið meira og minna í stað, eða um það bil 1.200 milljarðar. Aðrar skuldir hafa lækkað úr rétt tæpum 790 milljörðum 2010 í rétt tæpa 630 milljarða 2015.

Eiginfjárstaða hefur aukist verulega og raunar hækkað um 88,5% á tímabilinu, farið úr 1.560 milljörðum í rétt tæpa 3.000 milljarða.

Hvað varðar þátt leiðréttingarinnar sjálfrar í þeirri þróun þá var, eins og kom fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins sem lögð var fyrir Alþingi í janúar síðastliðnum um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, heildarfjárhæð sú sem ráðstafað var inn á fasteignaveðlán vegna leiðréttingarinnar 72,2 milljarðar. Þar af voru 62,4 milljarðar sem ráðstafað var sem beinni höfuðstólslækkun.

Til viðbótar við þetta hafa fjölmargir einstaklingar nýtt sér það úrræði að greiða hluta eða allan séreignarsparnaðinn sinn inn á höfuðstól fasteignalána. Um mitt síðastliðið ár nam sú upphæð um 24 milljörðum. Við höfum hins vegar ekki tiltæk gögn sem snúa að spurningu hv. þingmanns um hvernig þessi niðurfærsla skiptist milli landshluta, því miður. Þrátt fyrir eftirgrennslan gátum við ekki fengið neina sundurliðun á því. En eftir stendur þá, sem má sjá, að þegar þróun skulda heimilanna er skoðuð hafa öll þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið upp á að undanförnum árum haft eitthvað um það að segja að þróunin er sem raun ber vitni. Það má sjá merki 110%-leiðarinnar og annarra sértækra úrræða sem heimilunum stóðu til boða á árunum í kringum 2010–2011 í tölum þrátt fyrir allnokkra verðbólgu á þeim tíma. Að sama skapi má sjá þess merki þegar leiðréttingin kemur til framkvæmda (Forseti hringir.) 2014–2015 að nafnvirði skulda lækkaði nokkuð.