146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

skuldastaða heimilanna.

521. mál
[12:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Já, ég er enn að leita að því hversu þungt þessi leiðrétting vegur í batnandi skuldastöðu heimilanna. Ég er að leita að tölum, eins og ég spurði um. Þær koma ekki fram nema í heild sinni, sem sagt 72,2 milljarðar, en sú tala segir ekkert nema í samhengi. Ég er að leita að samhenginu. Það er augljóst að hækkandi húsnæðisverð hefur að langmestu leyti áhrif á batnandi skuldastöðu heimilanna. Ég er ekki með það hlutfall heldur. Það var hluti af fyrirspurn minni í fyrra skiptið, en ég vildi inna sérstaklega eftir þessum þætti. Ég er að leita að sundurliðun á þeim mismunandi leiðum sem farnar hafa verið til þess að sjá hversu skilvirkar þær eru, kannski upp á framtíðartónlist. Með stuttum, einföldum reikningi, bara með því að draga þessa 72,2 milljarða frá heildinni og deila smá, fékk ég um það bil 1,5% af heildarskuldastöðunni. Ég veit ekki hvort það er rétt aðferðafræði eða hvort ég þarf að taka tillit til einhverra fleiri þátta, þannig að ég spyr ráðherra, sem hefur mun betri aðstöðu til þess að setja upp dæmið á faglegri hátt en ég.

Ég spyr aftur: Hvað má gera ráð fyrir að leiðréttingin vegi þungt í batnandi skuldastöðu heimilanna? Sleppum sundurliðun eftir landshlutum.