146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[10:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta góð og skörugleg viðbrögð við ábendingum mínum og fleiri hv. þingmanna. Það er hárrétt hjá hæstv. forseta að það er hægt að svara fyrirspurnum rafrænt eftir að þingi lýkur. Mér finnst samt umhugsunarvert ef hæstv. ráðherrar geta leyft sér að trassa að svara fyrirspurnum þangað til það er búið að senda þingið heim af því að það tekur af okkur vettvang til að ræða efni fyrirspurnarinnar, ræða svarið. Þegar maður sendir fyrirspurn til skriflegs svars er vissulega enginn sérstakur vettvangur til að ræða það en það er þó hægt að gera undir ýmsum liðum í dagskrá þingsins.

Mér finnst það dæmi um mjög slæm vinnubrögð ef ráðherrar geta einfaldlega leyft sér að trassa að svara fyrirspurnum af því að það er óþægilegt að svara þeim, sent þingið heim og sent (Forseti hringir.) þingmönnum þá rafrænt svar.