146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[12:35]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að mæla fyrir breytingartillögu minni við frumvarpið um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tillagan gengur út á að taka á stöðum sem falla á milli í núverandi lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þ.e. að heimilt sé að falla frá mótframlagi sem er til staðar í dag og er ætlast til að sá sem þiggur styrkinn greiði, 20% mótframlag, svo sem með vinnuframlagi eða öðrum hætti. Tillagan hljóðar svo:

„Sá sem fær úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skal greiða mótframlag sem nánar er ákveðið í reglugerð. Ráðherra skal þó vera heimilt að víkja frá kröfu um mótframlag sé úthlutun veitt til ferðamannastaða í einkaeigu þar sem engin þjónusta er veitt. Sé vikið frá kröfu um mótframlag má fjárhæð styrks nema að hámarki 8.000.000 kr.“

Það er vandamál í dag með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða að þar er gengið út frá því að einhver rekstur eða þjónusta sé veitt á staðnum. Hins vegar eru staðir þar sem fólk ætlar einfaldlega ekki að græða á því að staðurinn sé á þeirra landi en á sama tíma verður landið fyrir skemmdum vegna átroðnings ferðamanna og þeir geta í raun ekki meinað ferðamönnum aðgang út af lögum um frjálsar ferðir manna. Þessari tillögu er ætlað að laga það og skerpa á því að það sé mögulegt.