146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara að koma hér upp og segja örfá orð. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur gert góða grein fyrir meginvinnu hv. velferðarnefndar. Mig langaði að ræða um tvær til þrjár breytingartillögur í mjög stuttu máli og ekki lengja umræðuna um of.

Fyrst er það breytingartillaga við 1. tölulið:

„Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Kostnaði notenda verði jafnan stillt í hóf þannig að dregið verði úr hættu á því að einhverjir þurfi að neita sér um nauðsynleg lyf af fjárhagsástæðum.“

Talsverð umræða fór fram um þetta í hv. velferðarnefnd sem snerist í raun um umræðu um tengt mál sem er greiðsluþátttökukerfið. Rætt var um þá einstaklinga sem hafa lent uppi í þaki í greiðsluþátttökukerfinu sem snýr að lyfjum og á sama tíma í greiðsluþátttökukerfi sem snýr að heilbrigðiskostnaði. Nokkur umræða var um það að ákveðnir einstaklingar með lágar tekjur sem lenda uppi í þakinu í báðum kerfum eigi jafnvel í erfiðleikum. Við höfum heyrt fréttir af einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að leysa út lyfin sín.

Nokkrir hv. nefndarmenn töluðu um mikilvægi þess að horft verði til framtíðar í því hvernig hægt verði að sameina greiðsluþátttökukerfi lyfja og heilbrigðiskostnaðar, því að þegar einstaklingar eru komnir upp í þökin í báðum þessum kerfum getur það verið talsverður kostnaður, t.d. fyrir einstakling sem er á lágmarkslaunum í landinu.

Ég vil líka nefna c-lið í breytingartillögunum við 1. tölulið, en það er liður sem hefur fengið nafnið Bíldudalsákvæði. Þar stendur sem sagt:

„Í stað orðanna „æskilegt sé að heimilað verði að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum“ í h-lið komi: mögulegt sé að heimila sölu tiltekinna lausasölulyfja með öðrum hætti en hinum hefðbundna.“

Eins og ég sagði þá hefur þetta ákvæði fengið heitið Bíldudalsákvæði. Þetta var aðeins rætt á síðasta kjörtímabili, en heitið tengist því að það hefur meðal annars verið nefnt að á Bíldudal er ekki apótek og erfiðar samgöngur beggja megin við bæinn. Á stöðum þar sem aðstæður eru þannig getur verið erfitt að nálgast nauðsynleg lyf, hitalækkandi og verkjastillandi. Töldu nefndarmenn mikilvægt að skoða þetta ákvæði örlítið og töldu mögulegt að hefja sölu tiltekinna lausasölulyfja með öðrum hætti en hinum hefðbundna, þ.e. að horft verði til leiða til að koma á móts við íbúa sem búa við aðstæður sem þessar og þurfa á lyfjum að halda. Auðvitað vitum við að fólk reddar sér oft og hringir í vini eða ættingja og biður um slíkt, en í einhverjum tilvikum er það ekki hægt, fólk á ekki til lyf.

Ég vil nefna aðra breytingartillögu sem hljóðar svo:

„Við fyrri málslið b-liðar bætist: og miðlægt lyfjakort í þeim tilgangi að tryggja rétta lyfjaskömmtun og draga úr líkum á óviðeigandi lyfjameðferð.“

Þetta var mikið til umræðu. Á þeim tíma sem hv. velferðarnefnd var að vinna þetta mál var það einmitt talsvert í fréttum að þau leiðinlegu og alvarlegu mistök hefðu átt sér stað að rangir lyfjaskammtar hefðu verið afgreiddir og röng lyf eða að verið væri að gefa fólki lyf sem ekki mætti taka inn saman. Það er mikilvægt að leita leiða til að koma í veg fyrir það.

Ég vil nefna annað sem kemur fram í sjálfri þingsályktunartillögunni. Í k-lið 1. töluliðar stendur, með leyfi forseta:

„Útboð lyfja verði styrkt og bætt og leitað eftir samstarfi um sameiginleg útboð með öðrum Norðurlandaþjóðum.“

Þetta höfum við nefnt í umræðu um ríkisfjármálaáætlun, þ.e. um mikilvægi þess að Ísland leiti leiða til samstarfs við Norðurlandaþjóðirnar til að reyna að lækka kostnað ríkisins vegna lyfjakaupa og bjóða upp á ný og samkeppnishæf lyf og til að bjóða upp á sambærileg lyf og Norðurlandaþjóðirnar, að við séum ekki skrefum á eftir því sem þekkist í okkar ágætu nágrannalöndum. Það er mjög mikilvægt að við stígum þau skref sem þarf svo að við getum farið í sameiginlegt útboð þeim sjúklingum til heilla sem berjast við erfiða sjúkdóma og þurfa á bestu lyfjum að halda.

Ég tek undir mikilvægi þess sem kemur fram í lyfjastefnunni. Það er mikilvægt að við höfum lyfjastefnu í landinu og að við stuðlum að skynsamlegri og hagkvæmri notkun lyfja. Ég vil einnig taka undir orð hv. þingmanns, flutningsmanns þessa nefndarálits, um mikilvægi þess að við horfum á forvarnir til að reyna að koma í veg fyrir að heilsuvandinn komi upp; að við bregðumst ekki alltaf við eftir á heldur horfum til þess hvernig við getum reynt að koma í veg fyrir hlutina.