146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[18:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar við unnum að frumvarpinu í fyrra um fyrstu fasteign komu vissulega fram ólík sjónarmið. Við sem unnum að frumvarpinu og komum því hér í gegn vorum hins vegar með miklar væntingar um að það myndi skila miklu. Nú höfum við séð það í fréttum í vetur að þrátt fyrir okurvexti sem húsnæðiskaupendum bjóðast og þrátt fyrir að framboð hér á höfuðborgarsvæðinu sé vissulega allt of lítið og gæti verið miklu betra, bæði framboð á íbúðum og ekki síður lóðum til að byggja á, er það nú staðreynd að fyrstu kaupendur hafa aldrei verið fleiri, sem bendir til þess að þetta úrræði sé strax farið að nýtast. Menn sjá fram á að geta nýtt þessa leið til þess að greiða niður höfuðstólinn og/eða afborganir á fyrstu árum. Það er því mjög gleðilegt.

Þegar við vorum að vinna að frumvarpinu var það tekið til gagngerrar skoðunar hvort ekki væri skynsamlegt að láta það þá þegar ná til svokallaðrar annarrar fasteignar, þ.e. þeirra sem misstu húsnæði sitt í hruninu og hafa þurft að fara út á mjög dýran leigumarkað, sem standast jafnvel ekki greiðslumat þó að, svo furðulega sem það nú hljómar, þeir þurfi að greiða 200–300 þúsund á mánuði í leigutekjur af húsnæði, en afborganir af lánum væru miklu lægri. Þess vegna er það gleðilegt að hér sé komið fram frumvarp um að vísa því til fjármála- og efnahagsráðherra að koma inn með slíkar hugmyndir. Þær eru til í stjórnsýslunni. Við vorum að skoða þær. Talið var að það væri of stór efnahagsleg aðgerð að koma inn með hvort tveggja í einu, þ.e. stuðning við fyrstu fasteign og þessa, en rökrétt framhald að fylgja því eftir.

Á sama tíma í fyrra tryggðum við lagaumgjörð um húsnæðismarkaðinn að öllu öðru leyti. Það er auðvitað mikilvægt að fylgja því eftir er varðar leigumarkaðinn. Þar er fólk sem bæði vill leigja og sem þarf að leigja og það þarf auðvitað að vera til stuðningur við það fólk. Ein leið til þess er að skoða betur hugmyndir sem við Framsóknarmenn kynntum í aðdraganda síðustu kosninga, þ.e. að taka róttæka endurskoðun á skattkerfinu þar sem vaxtabætur eru teknar inn í kerfið. Það er ljóst að tekjulægri, þ.e. meðaltekjufólk og þar fyrir neðan, fólk með minni tekjur, greiðir hlutfallslega hærri skatta hér á Íslandi en til að mynda annars staðar á Norðurlöndunum. Þeir sérfræðingar sem komið hafa hér frá erlendum stofnunum hafa aldrei skilið hvernig vaxtabótakerfið hefði átt að koma þessum hópi til góða. Satt best að segja hefur hann ekki gert það nægjanlega vel.

Þess vegna væri skynsamlegt að fara í róttæka endurskoðun á skattkerfinu með það fyrir augum að auka hag þessa hóps m.a. til þess að hann gæti nýtt sér þessar leiðir með sama hætti og þeir sem hafa aðeins hærri tekjur, þ.e. stuðninginn innan fyrstu fasteignar.

Þess vegna styðjum við Framsóknarmenn þessar hugmyndir og gleðjumst yfir því að þær hafi komið fram hér.