146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[20:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil árétta í ræðu minni og halda til haga þeim sjónarmiðum sem fram komu í umfjöllun um frumvarpið við 2. umr. og þeim sjónarmiðum sem fram komu í nefndaráliti minni hlutans sem bárust um málið, þá aðallega frá Neytendasamtökunum. Síðan vil ég rifja upp nokkur atriði sem skipta miklu máli í umfjöllun um málið hér í þingsal.

Með því frumvarpi sem við ræðum hér, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda, lán tengd erlendum gjaldmiðlum, þá er lagt til að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna neytenda ef þeir hafa nægar tekjur til að standa undir verulegum sveiflum í greiðslubyrði lánanna eins og hv. þm. Lilja Dögg Alfreðsdóttir fór skýrt yfir í ræðu sinni.

Með öðrum orðum stendur til í þessu frumvarpi að greiða fyrir aðgangi efnaðs fólks að lánum sem ekki standa öðrum til boða. Er það rétt að verði þetta frumvarp að lögum verði einmitt þau ríku ríkari og hafi tækifæri til þess að afla sér fjármuna með öðrum hætti en þau sem minna hafa á milli handanna? Af því að þau lán sem um ræðir munu aðeins standa efnafólki til boða. Þá munu þau hafa áhrif. Sterkur hvati er til þess að taka slík lán enda eru vextir víða erlendis mun lægri en hér. Með því að ávaxta fé hér á landi geta lántakendur fengið í sinn hlut umtalsverðan vaxtamun. Sá ávinningur er þó ekki kostnaðarlaus. Stýrivextir Seðlabankans hrífa síður ef efnafólk getur tekið gengistryggð lán á vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivextina. Svo ég spyr: Er það rétt að verði frumvarpið að lögum muni þeir tekjuháu og þeir sem hafa tekjur í erlendri mynt geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti Seðlabankans? Þeir eru þannig á allt öðrum kjörum en aðrir og geta þar af leiðandi haldið þenslu sinni óbreyttri og gefið í ef svo háttar til.

Mikil erlend lántaka, óvarin lántaka getur einnig magnað upp gengissveiflur og aukið fjármálaóstöðugleika. Líkur eru til þess að margir þeirra leitist samtímis við að kaupa gjaldeyri til að lágmarka gengistap ef krónan tekur að lækka. Það eykur lækkunina sem hækkar verð innflutts varnings og eykur því verðbólgu. Núna hækka aftur á móti verðtryggðar skuldir fólks.

Undir svipað sjónarmið taka Neytendasamtökin í umsögn sinni við þetta frumvarp þar sem þau segja, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin hvetja til þess að umræddar reglur séu innleiddar með þeim hætti að neytendur njóti vafans, enda eru neytendur sá hagsmunahópur sem á mest undir verði frumvarpið að lögum. Í því ljósi taka samtökin undir að rétt sé að lán sem tengd eru erlendum gjaldmiðli séu ekki verðtryggð, enda eru þá önnur og ytri atvik sem geta haft áhrif á höfuðstól lánsins til hækkunar en möguleg verðbólga.

Brýnt er að Seðlabanki Íslands hafi heimildir til að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir galdeyrisáhættu, sér í lagi ef fram koma vísbendingar um að lánveitingarnar geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Viðeigandi fjárhagsvarúðartæki þurfa að vera til staðar til að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða tímanlega.

Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar tekur undir áherslur Seðlabanka Íslands á að hann fái skýrt umboð til að beita því þjóðhagsvarúðartæki sem reglusetningin er.

Undir það taka Neytendasamtökin svo ég vísi nú aftur í þeirra umsögn. Þau telja líka mikilvægt að þessar reglur Seðlabanka Íslands um erlend lán í þeim tilgangi að takmarka slíkar lántökur verði skýrari og afdráttarlausari þannig að hér verði ekki til aðstæður sem skapi lántöku nema hún sé verulega takmörkuð.

Ég vil líka minnast á að í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að eftirlitsstofnun EFTA telur bann íslenskra laga við gengistryggingu ekki samrýmast meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Stofnunin hefur þó ekki krafist þess að opnað verði á gengistryggð lán til óverðtryggðra lántaka eins og frumvarpið kveður á um.

Í stuttu máli má því segja að í frumvarpinu endurspeglist pólitísk ákvörðun um að greiða fyrir aðgangi efnafólks að ódýrri erlendri fjármögnun sem ekki stendur öðrum til boða og er á kostnað annarra í samfélaginu. Þess vegna er það svo að minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki stutt framgang þessa máls.

Til upprifjunar eru í minni hlutanum hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Oktavía Hrund Jónsdóttir, sem var fulltrúi Pírata við gerð nefndarálits minni hlutans, og svo undirrituð sem hér stendur.