146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:14]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það var skorað á mig og því lýst yfir að þingmaður í Bjartri framtíð — og ég skil ekki alveg þau ummæli en ef ég reyni að greina í svörin, mögulega mun hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir útskýra það í andsvörum, þá er það væntanlega út af persónulegum málum mínum og þeim persónulegu málum sem ég hef farið með og voru birt í heimildarmynd um vogunarsjóðina.

Mig langar því að tala örstutt um gengistryggð lán á þeim tíma sem fyrrverandi ríkisstjórnir leyfðu að lána til einstaklinga frá 2002 vitandi það að gengistryggð lán voru ekki lögleg, að skilmálar þeirra lánasamninga sem gerðir voru við fyrirtæki og við fólk væru ólöglegir. Það er grundvallaratriði ef lántakendur taka lán í bönkum eða hjá fjármálastofnunum að skilmálar séu löglegir. Það er verið að gera það núna. Það var ekki á þeim tíma. Það var ekki á öllum þeim árum. Þar fyrir utan snerist barátta mín fyrir dómstólum um að sýna fram á að þetta væru raunverulega ekki erlend lán, vegna þess að það fór aldrei neitt fjármagn milli landa þegar var verið að veita lántakendum erlend lán. Það voru svik. Það voru vond vinnubrögð. Þessir fjórir flokkar sem hafa verið við völd síðustu ár leyfðu það, sváfu á verðinum hvað það varðar. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Það komu aldrei erlendir peningar inn í slík viðskipti við fyrirtæki og við einstaklinga, a.m.k. ekki í þeim málum sem ég hef barist fyrir fyrir dómstólum og er enn að. Þar fyrir utan snerist þetta um fjármögnunarleigusamninga, hvort þeir væru lán eða leiga.

Ég er ekki á móti því að þjóðin og fólk yfirleitt í landinu og fyrirtæki fái góða samninga, taki gengistryggð lán. Ég veit ekki hvort Íslendingar eru meira varðir fyrir verðtryggðum lánum. Ég er ekki viss. Ísland er a.m.k. sér á báti hvað varðar verðtryggð lán. Ég vil líka leggja áherslu á að ég treysti fólki til þess að ákveða sjálft í dag með upplýstum hætti hvers konar áhættu það tekur með samningum sínum.