146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (þ.e. öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið sem bíður nú 2. umr. í þinginu. Nefndinni bárust umsagnir um málið og voru umsagnaraðilar kallaðir fyrir nefndina, eins og fram kemur í áliti meiri hlutans frá 22. maí sl., á þskj. 874. Þar voru einnig lagðar til breytingar sem eru kallaðar aftur en meiri hlutinn leggur þó áfram til breytingar við 5. gr. frumvarpsins sem ekki eru efnislegar. Auk þess leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi er lögð er til breyting á 3. gr. í þá veru að kveða á um að nýting sjávargróðurs skuli, eftir því sem við á, vera í samræmi við lög um náttúruvernd og lög um vernd Breiðafjarðar.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. gr. í þá veru að ekki aðeins Hafrannsóknastofnun heldur einnig Náttúrufræðistofnun Íslands stundi rannsóknir og vakti sjávargróður og vistgerðir, vistkerfi og lífríki sem honum tengjast. Þá skuli Hafrannsóknastofnun leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar um ráðgjöf um nýtingu á sjávargróðri. Einnig er lagt til að stofnanirnar fái heimild til að gera samninga við aðra aðila um framkvæmd rannsókna eða vöktunar og að auki skuli þær halda gagnagrunn um niðurstöður rannsókna og vöktunar sem skuli reglulega birtar og vera aðgengilegar.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á b-lið 5. gr. Í greininni er mælt fyrir um að heimilt sé að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs utan netlaga sjávarjarða og skuli þá áður en slíkar ákvarðanir eru teknar að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Meiri hlutinn leggur til að einnig skuli leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og eftir atvikum annarra aðila, svo sem Breiðafjarðarnefndar við nýtingu sjávargróðurs í Breiðafirði.

Í fjórða lagi er lagt til að í 7. gr. verði hnykkt á því að forgangur Þörungaverksmiðjunnar hf. á Reykhólum nemi 20.000 tonnum. Jafnframt er lagt til að skýrt verði kveðið á um að óheimilt verði að framlengja eða framselja heimildir samkvæmt þessu ákvæði.

Að lokum er lagt til að við lög um stjórn fiskveiða bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða í þá veru að gera skuli rannsóknar- og vöktunaráætlun fyrir lífríki Breiðafjarðar í tengslum við nýtingu sjávargróðurs og skal hún ná til minnst þriggja ára. Gert er ráð fyrir því að kostnaður fyrir rannsóknir og vöktun samkvæmt ákvæðinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárheimildum hverrar stofnunar. Jafnframt verði í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að hefja skuli endurskoðun á ákvæðum laganna um öflun sjávargróðurs, verði frumvarpið að lögum, eigi síðar en 1. október 2020 og að ákvæðin falli úr gildi 1. janúar 2021.

Óli Björn Kárason ritar undir álit þetta með fyrirvara um að ákvæði frumvarpsins kunni að fela í sér sértæka skerðingu á eignarrétti.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er sérstök grein fyrir í sérstöku þingskjali sem hér liggur fyrir.

Undir þetta rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, framsögumaður, Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar, Ásmundur Friðriksson, Hanna Katrín Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Óli Björn Kárason, með fyrirvara, Þórunn Egilsdóttir og Theodóra S. Þorsteinsdóttir.

Ég vísa í breytingartillögurnar sem eru á sérstöku þingskjali nr. 985, mál 272.